Fara í efni
Fréttir

Lausa skrúfan verður á Glerártorgi í dag

Grófarfélagar verða á Glerártorgi á milli kl. 12.00 og 17.00 bæði í dag, laugardag, og á morgun. Þar ætla þeir að hitta gesti, ræða um geðheilbrigði og safna framlögum til þessa mikilvæga verkefnis. Lausa skrúfan verður til sölu til styrktar Grófinni - Geðrækt en febrúar er mánuður Lausu skrúfunnar og 15. febrúar markar upphaf söluátaks verkefnisins sem stendur út  mánuðinn.
 
„Markmið Lausu skrúfunnar er ekki bara að styðja Grófina í dag, heldur einnig að skapa framtíðarsýn þar sem fleiri valdeflandi verkefni á Norðurlandi geta fengið brautargengi,“ sagði Sonja Rún Sigurðardóttir, verkefnastjóri kynningamála og Unghuga Grófarinnar, í grein sem birtist á Akureyri.net í gær. 
 
Klukkan 14 í dag mætir Svavar Knútur á staðinn, segir gestum og gangandi sögur og syngur nokkur lög.
 
Lausa skrúfan er, segir í tilkynningu frá Grófinni:
 
  • Vitundarvakning um mikilvægi þess að hugsa vel um sína andlegu heilsu og berjast gegn sínum innri fordómum ekki síður en ytri.
  • Vegvísir fyrir fólk norðan heiða - jafnt fyrir þau sem eru að leita sér hjálpar við andlegri vanlíðan og þau sem vilja stunda geðrækt meðal jafningja.
  • Fjáröflun fyrir Grófina Geðrækt, sem er eina opna geðræktin á Norðurlandi.
 
Febrúar er mánuður Lausu skrúfunnar sem fyrr segir. Hægt verður að kaupa skrúfuna á Glerártorgi í dag og á morgun, en einnig verður hægt að kaupa hana í Byko, Ferro Zink og Pennanum á Akureyri.
 

Eins eru ýmsar styrktarleiðir á www.lausaskrufan.is þar sem má leggja málefninu lið.

Gerði hefur verið stuttmynd þar sem fjallað er um Grófina - Geðrækt og átakið Lausu skrúfuna. Þar má sjá viðtöl við þátttakendur og starfsfólk Grófarinnar sem og utanaðkomandi fagaðila sem hafa verið í sambandi við Grófina.

STUTTMYNDIN ER HÉR