Fara í efni
Fréttir

Látinn maður fannst í Fjörðum

Maður fannst látinn í kvöld í Bjarnarfjallsskriðum, austan Hvalvatnsfjarðar í Fjörðum. Talið er að þar sé um að ræða þýskan ferðamann sem leitað hafði verið að í allan dag, en það hefur ekki verið staðfest formlega, að því er segir á Facebook síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra í kvöld. Það var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar sem fann manninn um klukkan 19.00

Lögregla og björgunarsveitir á Norðurlandi eystra fengu í gærkvöldi ábendingu um bifreið á erlendum númerum, sem væri búin að standa óhreyfð í marga daga í Flateyjardal. „Strax var hafist handa um eftirgrennslan eftir eigandanum og kom í ljós að eigandinn heitir Bernd Meyer og er frá Þýskalandi, fæddur 1947. Hann kom til landsins í júní og mun vera einn á ferð,“ sagði á Facebook síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra um miðjan dag.

Aðgerðarstjórn var virkjuð á Húsavík og björgunarsveitir af Norðurlandi eystra boðaðar til leitarstarfa. Um 100 manns voru að störfum í dag; gönguhópar leituðu, notast var við dróna og báta og þyrla Gæslunnar tók þátt í leitinni sem fyrr segir.

Samband náðist við eiginkonu mannsins í Þýskalandi og kom þá í ljós að Mayer var síðast í sambandi við hana 14. júlí, þá staddur í Flateyjardal og á leið í gönguferð. Einnig leiddi eftirgrennslan í ljós að hann gisti á Grenivík áður en hélt út í Flateyjardal.