Fara í efni
Fréttir

„Landslagið“ hefur breyst hratt

Í kvöld var aðeins stálgrindin úr öðrum bragganum sjáanleg, annað er horfið og minningin ein. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Braggarnir tveir á horni Tryggvabrautar og Hvannavalla heyra brátt sögunni til. Hafist var handa fyrir fáeinum dögum að taka þá niður og í dag er öll þaklæðningin horfin – bárujárnið sem setur svo skemmtilegan svip á húsin – og önnur stálgrindin einnig. Aðeins stendur grind annars braggans og verður án efa minningin ein von bráðar. Vörugeymslan austast á lóðinni verður síðan jöfnuð við jörðu og síðla næsta árs verður risin verslun á vegum Krónunnar á lóðinni.

Nánast allt úr byggingunum þremur verður endurnýtt, eins og fram hefur komið hér á Akureyri.net. Það eru GV gröfur á Akureyri sem eignuðust braggana og hyggjast reisa annars staðar. Hjónin Sigurður Gíslason og Ásrún Árnadóttir, bændur á Steinsstöðum II í Öxnadal, nýta allt sem hægt er úr vörugeymslunni og GV gröfur nota að meira að segja steinsteypuna, sem mulin verður, sem uppfyllingarefni.

Smelltu hér til að lesa um braggana

Efri myndin var tekin fyrir rúmri viku, 10. maí, en sú neðri í kvöld. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.