Landsbankahúsið við Ráðhústorg til sölu

Landsbankinn vill selja stórhýsi sitt við Ráðhústorg á Akureyri en leigja hluta þess af nýjum eigendum og koma sér fyrir í minna rými. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Haft er eftir Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra að starfsemin þurfi minna húsrými en áður, enda þótt rekstur bankans úti á landi hafi verið efldur mikið á síðustu árum. Alls eru útibú Landsbankans úti á landi 28 og þar starfa þjónustufulltrúar sem sinna landinu öllu.
„Ráðstöfun þessi er í takt við ýmsar aðrar ráðstafanir í húsnæðismálum bankans á undanförnum árum, þar sem stórhýsi sem byggð voru fyrir Landsbankann fyrr á tíð hafa verið seld. Bankahúsin á Ísafirði og Selfossi hafa verið seld en þau eru í klassískum stíl rétt eins og byggingin á Akureyri,“ segir í Morgunblaðinu.