Fara í efni
Fréttir

Landhelgisgæslan eyddi sprengju í Hlíðarfjalli

Sprengja af Mortar-gerð sem Brynjar Karl Óttarsson, grunnskólakennari og umsjónarmaður vefsíðunnar um leitina að grenndargralinu, fann í Hlíðarfjalli í liðinni viku. Mynd: grenndargral.is.

Hlíðarfjall hefur að geyma margs konar minjar um seinni heimsstyrjöldina. Á vefnum grenndargral.is, sem grunnskólakennarinn Brynjar Karl Óttarsson heldur úti af mikilli ástríðu fyrir gersemum og sögulegum minjum í heimabyggð, var sagt frá því í liðinni viku að sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hafi eytt breskri sprengju af Mortar-gerð frá því í seinni heimsstyrjöldinni sem fansnt í Hlíðarfjalli. Á vefnum er iðulega vísað til þess að Varðveislumenn minjanna finni hluti. Nýlega var einnig fjallað um fund á skotfærum úr fórum nasista sem fundust í fjallinu og veldur nokkrum heilabrotum hvernig slíkt hefur ratað á þennan stað.


Rauði hringurinn sýnir hvar sprengjan lá. Mynd: grenndargral.is.

Sérstaklega er tekið fram að sprengjurnar sem hafa verið að finnast í Hlíðarfjalli séu utan skíðasvæðisins og úr alfaraleið, en það breyti þó ekki því að á meðan virkar sprengjur liggja á víðavangi sé hættan alltaf til staðar og rétt að fara að öllu með gát.

Fréttin á grenndargral.is um sprengjuna sem eytt var á miðvikudaginn í liðinni viku er svohljóðandi.

„Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar eyddi breskri sprengju úr seinni heimsstyrjöldinni í Hlíðarfjalli í dag. Varðveislumenn minjanna gengu fram á hlut í fjallinu í gær sem svipaði mjög til breskrar sprengju af gerðinni Mortar og tilkynntu þegar í stað um fundinn. Eftir að hafa ráðfært sig við Landhelgisgæsluna og sent myndir og mál suður, barst staðfesting á að um mortar-sprengju væri að ræða. Teymi sprengjusérfræðinga kom norður í gærkvöld en gekk á fjallið í morgun. Rannsóknir þeirra á staðnum staðfestu að þarna væri virk sprengja á ferðinni sem hætta stafaði af og var því ákveðið að eyða henni á staðnum. Aðgerðin heppnaðist vel. Þetta er í þriðja skipti á undanförnum fjórum árum sem sprengjudeild Landhelgisgæslunnar þeysist upp í Hlíðarfjall til að eyða sprengjum úr seinni heimsstyrjöldinni. Rétt er að taka fram að svæðið sem sprengjurnar hafa verið að finnast á er utan skíðasvæðisins og úr alfaraleið. Það breytir þó ekki því að á meðan virkar sprengjur liggja á víðavangi er hættan alltaf til staðar og rétt að fara að öllu með gát.“


Sprengjan lætur ekki mikið yfir sér og líklega auðvelt að láta hana framhjá sér fara nema verið sé að leita sérstaklega að minjum, eins og varðveislumenn minjanna gera títt í fjallinu. Mynd: grenndargral.is.

Skotfæri úr fórum nasista

Tveimur dögum áður en Brynjar Karl fann Mortar-sprengjuna í Hlíðarfjalli fann hann skotfæri úr fórum nasista í fjallinu, en það er hulin ráðgáta hvernig slíkt getur hafa ratað á þessar slóðir.

Í frásögn af þýsku skotfærunum sem birtist á grenndargralsvefnum mánudaginn 5. ágúst og er meðal annars sagt frá því að Grenndargralið hafi nokkur undanfarin ár fjallað nokkuð um æfingabúðir bandamanna í vetrarhernaði á stríðsárunum í Hlíðarfjalli. Þar hafi ýmislegt komið í ljós, en nýjasti fundur Varðveislumanna minjanna á æfingasvæði breskra, bandarískra og norskra hermanna í fjallinu sé sérstaklega áhugaverður og án efa sá sem veldur mestum heilabrotum. Enda er hér um þýsk skotfæri að ræða, eins og sagt er frá í umfjöllun Grenndargralsins. Þar segir meðal annars:

„Gripurinn sem um ræðir er skothylki af gerðinni 7.92×57mm Mauser, framleitt í Þýskalandi árið 1937. Sú staðreynd að þýskt skothylki frá stríðsárunum finnist í æfingabúðum bandamanna á Íslandi er um margt afar óvenjuleg. Ekki síður vekur athygli að umræddur gripur er skothylki ásamt byssukúlu, sem sagt heilt skot. Endinn á hylkinu gefur jafnframt til kynna að um heilt skot er að ræða þar sem engin merki eru um far eftir gikk á byssu.

Skot af þessari gerð komu fyrst fram á sjónarsviðið á tímum þýska keisaradæmisins n.t.t. á árunum 1903-1905. Eftir fyrri heimsstyrjöld máttu Þjóðverjar aðeins framleiða vopn og skotfæri í takmörkuðu magni. Þeim leyfðist að framleiða þessa tilteknu gerð skotfæra og það einungis í einni verksmiðju. Verksmiðjan bar nafnið Polte. Árið 1924 fóru Þjóðverjar að framleiða skotfæri í fleiri verksmiðjum en þó ávallt undir bókstafnum P til að villa um fyrir eftirlitsaðilum úr röðum bandamanna. Skotið í Hlíðarfjalli er framleitt í einni af 34 verksmiðjum nasista í Þýskalandi sem framleiddu ógrynni 7.92×57mm Mauser-skota á árunum fyrir stríð og hugsuð voru fyrir stríðsbrölt nasista. Í átökum seinni heimsstyrjaldar notaði þýski herinn skot eins og það sem fannst í Hlíðarfjalli, jafnt landher sem flugher (Luftwaffe), í riffla og vélbyssur.“

Nánar um fundinn: Grenndargralið » Skotfæri úr fórum nasista fannst í Hlíðarfjalli

Hér er stutt myndband um fund skothylisiins í Hlíðarfjalli: