Læstur inni í íbúð á vegum bæjarins í 15 ár
Sveinn Bjarnason bjó í fimmtán ár í læstri íbúð á vegum Akureyrarbæjar. Hann bankaði oft ítrekað og grét áður en starfsfólk opnaði fyrir honum. Móðir hans gerði endurteknar athugasemdir við að hann væri læstur inni og segir son sinn hafa verið vanræktan.
Þannig hefst umfjöllun Heimildarinnar á laugardaginn um Svein Bjarnason, 35 ára karlmann með mikla fötlun sem þarf aðstoð við allar athafnir daglegs lífs. Greinin birtist í prentaðri útgáfu Heimildarinnar en er einnig aðgengileg áskrifendum á netinu.
Heimildin segir:
„Sex vikur eru síðan hann flutti til Egilsstaða en í fimmtán ár þar á undan, frá því hann var 21 árs, bjó hann í læstri íbúð á vegum velferðarsviðs Akureyrarbæjar. Hann gat ekki sjálfur gengið um útidyrnar heldur þurfti að banka á hurðina til að vera hleypt þar út, en stundum heyrði enginn hann banka. Eftir að hann fékk síma hringdi hann jafnvel þrjátíu sinnum á dag í móður sína, Ásdísi Snjólfsdóttur, oft til að biðja hana um að láta starfsfólk sambýlisins opna útidyrahurðina. Ísskápurinn hans var einnig læstur.“
Akureyri.net mun fjalla nánar um málið síðar.