L-listi, Sjálfstæðismenn og Framsókn ræða saman í dag
Fulltrúar flokkanna þriggja sem fengu flesta bæjarfulltrúa á Akureyri í kosningunum í gær ætla að hittast strax í dag og ræða saman um möguleika á myndun meirihluta í bæjarstjórn.
L-listinn fékk þrjá bæjarfulltrúa, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn tvo menn hvor – alls sjö af 11 í bæjarstjórn.
„Það er ekkert farið að ræða málefni en okkur finnst eðlilegast að þrír stærstu flokkarnir byrji á því að hittast,“ sagði Gunnar Líndal Sigurðsson, nýr oddviti L-lista, í samtali við Akureyri.net í hádeginu.
L-listinn er sigurvegari kosninganna ásamt Flokki fólksins, sem fékk einn bæjarfulltrúa í fyrstu tilraun, og Gunnar er alsæll með útkomuna. „Við erum náttúrlega himinlifandi yfir niðurstöðunum. Það er frábært að halda Höllu Björk inni, hún er með mikla reynslu og því virkilega ánægjulegt að ná því takmarki,“ sagði hann.
Gunnar og Elma Eysteinsdóttir, sem skipuðu tvö efstu sætin, eru bæði nýliðar í stjórnmálum en Halla Björk Reynisdóttir, sem var í þriðja sæti, var forseti bæjarstjórnar á nýliðnu kjörtímabili.
Þegar Gunnar er spurður hvort hann telji sig geta þakkað árangurinn einhverjum sérstökum málum svarar hann að bragði: „Ætli það sé ekki bara Glerárlaugin!“
Það vakti töluverða reiði þegar bæjarstjórn ákvað fyrir loka sundlauginni við Glerárskóla fyrir almenningi. Síðan var dregið aðeins í land og tíminn styttur mjög sem fólk gæti notað laugina. „Það virðist ekki stórt mál, en er þó stórt mál fyrir marga,“ segir Gunnar. Í aðdraganda kosninganna ljáðu fulltrúar framboðanna máls á því að laugin yrði opin jafn lengi og hún hafði verið. „Ég var fyrstur með það,“ segir Gunnar en bætir við: „Annars held ég að fólk almennti haft mikið traust á L-listanum. Hann hefur lengi verið í meirihluta og komið góðum hlutum í verk.“
Smellið hér til að lesa frétt um lokatölur í nótt