Ást í faraldrinum og mikilvægi flokkunar
Tveir nýir pistlahöfundar eru kynntir til leiks á Akureyri.net í dag: Andrea Sigrún Hjálmsdóttir, félagsfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri, og Guðmundur Haukur Sigurðarson, tæknifræðingur og framkvæmdastjóri Vistorku, félags sem er alfarið í eigu Norðurorku og hefur það markmið að stuðla að framleiðslu umhverfisvæns eldsneytis með sjálfbærri nýtingu hráefnis sem fellur til á Eyjafjarðarsvæðinu.
Í fyrsta pistli sínum fjallar Guðmundur Haukur um evópsku nýtnivikuna sem stendur yfir. „Við Akureyringar eigum eitt skýrasta dæmið um alvöru árangur af réttri flokkun: með því að setja 1 kg af matarúrgangi í moltugerð í stað urðunar drögum við úr losun koltvísýrings (CO2) um 1 kg. Á hverju ári fara um 8.000 tonn hér af svæðinu í þennan farveg í stað urðunar. Það er því risa loftslagsákvörðun að henda matarleifum í almennt rusl sem fer í urðun,“ segir hann m.a. í athyglisverðum pistli.
Andrea Sigrún bendir á að rannsóknir bendi til þess að ólaunuð vinna mæðra hafi aukist í kórónuveirufaraldrinum. Hvetur íslenska karla til að taka enn meiri þátt inni á heimilinum og nefnir fjölmörg dæmi. Flestir séu meðvitaður um að verkstjórn á vinnustöðum krefst mikillar vinnu og fyrir það fá verkstjórar greitt sérstaklega.
„Sumar rannsóknir benda til þess að jafnari verkaskiptingu fylgi meira ástríki í parasamböndum. Sannarlega til mikils að vinna,“ segir Andrea Sigrún.