Fara í efni
Fréttir

Kvennakórinn Embla flytur Fjallræðu nútímans

Roar Kvam, stjórnandi og stofnandi Kvennakórsins Emblu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Kvennakórinn Embla, undir stjórn Roars Kvam og með fríðum flokki hljóðfæraleikara mun flytja nútímatónverkið Tuvayhun í Glerárkirkju á morgun, laugardaginn 25. maí. Verkið er samið árið 2018, af norska tónskáldinu Kim Andre Arnesen, en hann hefur meðal annars samið kórverkið Magnificat sem hlaut Grammy verðlaun árið 2016. Roar Kvam er reyndar þekktur fyrir að velja stór og jafnvel krefjandi verk fyrir kórinn sinn. 

„Þær eru nú orðnar vanar ýmsu hjá mér,“ segir Roar kíminn, þegar blaðamaður spyr hvernig kórfélögum leist á verkið þegar hann sýndi þeim það í janúar. „Þetta virkaði mjög erfitt fyrst, en það breyttist þegar við fórum að hlusta vel á það saman og prófa það. Núna finnst þeim þetta æðislegt verk. Þetta er tónlist sem vex með manni og þó hún sé svolítið skrítin á köflum, er hún falleg og melódísk líka.“

Blaðamaður hittir Roar á Akureyri Backpackers til þess að taka viðtalið. Þar situr hann og les nótur, líkt og aðrir lesa dagblöð. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Ég þekki tónskáldið, en hann er að ná heimsfrægð í dag fyrir sínar tónsmíðar,“ segir Roar. „Ég frétti af því að hann hefði samið þetta fyrir stúlknakór í New York og fékk að skoða verkið. Verkið hefur undirtitilinn „Beatitudes for a wounded world“, eða bænir fyrir særða jörð. Og Tuvayhun þýðir bara Blessun á arameisku, tungumálinu sem Jesú talaði.“ Verkinu er skipt í kafla og hver kafli sækir boðskap sinn í Sæluboðin úr Fjallræðunni. Það var Charles Anthony Silvestri sem samdi textann við hvern kafla, en hann er bandarískt ljóðskáld og sagnfræðiprófessor.

Skáldið skoðar hvert heimurinn er kominn í dag og hver þjáning heimsins er. En þetta endar allt í ljósi

„Textinn er gríðarlega mikilvægur,“ segir Roar. „Verkið er á ensku og gestir tónleikanna fá textaskrá, svo þau geti fylgst með. Út frá Sæluboðunum skoðar skáldið hvert heimurinn er kominn í dag og hver þjáning heimsins er. Spurningar um stríð og frið, og móðurást spilar stórt hlutverk. En þetta endar allt í ljósi.“ Kórinn er búinn að æfa verkið síðan í janúar, en Roar segir að það sé óvenju langur tími, en verkið er krefjandi. „Það eru svona jazzhljómar í þessu líka, sem er áskorun.“

Frá fyrstu æfingu kórsins með hljómsveitinni. Roar stjórnar og saumar saman söng og spil. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Roar stofnaði Kvennakórinn Emblu árið 2002, en þá var hann nýbúinn að ljúka sérnámi í kórstjórn og langaði að prófa að stjórna kvennakór. „Áður hafði ég verið með karlakóra og blandaða, en þarna handvaldi ég 12 konur og vildi aðeins velja verk sem væru samin fyrir kvenna- eða samkynja raddir,“ segir Roar. „Við tökum aðallega fyrir klassísk og nútímaleg verk.“

Í dag eru 16 konur í kórnum, og með þeim í verkinu spilar níu manna hljómsveit. Þar eru strengjahljóðfæri, hljómborð, gítar, flautur og slagverk. Einnig eru fjórir einsöngvarar með kórnum, þau Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, Erla Dóra Vogler, Sigrún Hermannsdóttir og Einar Ingi Hermannsson. 

Hér eru ekki taktlausir menn á ferð. Hjörleifur Örn Jónsson og Haukur Pálmason sjá um fjölbreytt slagverk. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Við erum með mikið úrvalsfólk með okkur á þessum tónleikum,“ segir Roar, en hann mun stjórna öllum. „Kaflarnir eru mjög ólíkir, kannski er bara einn hljóðfæraleikari í sumum, en allir í þeim næsta. Það mun held ég engum leiðast á tónleikunum, það er inn á milli mjög taktföst tónlist, stundum drungaleg og þó að viðfangsefnið sé á köflum þungt og sorglegt, þá er ljós og von fléttað inn í það. Þetta er bæn og ósk um bjarta framtíð. Þarna er vögguvísa móður, þar sem hún sefar barnið sitt og lofar að allt fari vel.“

Tónleikarnir verða haldnir einu sinni, í Glerárkirkju kl. 17.00, laugardaginn 25. maí. Miðaverð er 5.000.- og miðasalan er við innganginn.
HÉR er viðburðurinn á Facebook.

 

Fleiri myndir frá æfingu: