Fara í efni
Fréttir

Kvennafrídagurinn 1985: Tvöföld laun ef þær mæta! – „Mútur“

Kvennafrídagurinn á Akureyri 1985. Mynd birtist í Degi.

Kvennafrídagurinn var haldinn í fyrsta sinn árið 1975, þann 24. október. Það vakti heimsathygli að íslenskar konur skyldu leggja niður störf og sameinast um land allt, þó fjölmennasti fundurinn væri á Lækjartorgi, þar sem u.þ.b. 25.000 konur komu saman. Á Akureyri komu saman á annað þúsund konur, sem ætti að þykja ágætt miðað við að það árið voru um það bil sex þúsund konur skráðar til heimilis í bænum. Akureyri.net fór að grúska og tók saman ýmsan fróðleik og umfjöllun um kvennafrídaginn á Akureyri í gegnum tíðina. 


Skjáskot úr 128. tölublaði Dags frá 1985. Útgáfudagur 25.10.1985. Fengið af www.timarit.is

Fyrsti kvennafrídagurinn á Akureyri

Í stuttri frétt í 44. tölublaði Dags frá árinu 1975 má lesa um fyrsta kvennafrídaginn á Akureyri. Bein tilvitnun í fréttina: „Á Akureyri höfðu konur opið hús í Sjálfstæðishúsinu og mættu þar hátt á annað þúsund konur, sem undu sér við fjölbreytta dagskrá er undirbúningsnefnd hafði skipulagt. Kvennafrídagurinn var ekki aðeins frídagur, heldur einnig baráttudagur fyrir launajafnrétti. Má ætla, að hin mikla samstaða kvenna á kvennafrídeginum kunni að valda þáttaskilum, ef vel er á málum haldið í framhaldi af þessari öflugu kynningu. Kvennafrídagurinn á Akureyri var með glæsibrag og konum til mikils sóma.“ - Dagur, 29.10.1975. 

Listin í brennidepli á 10 ára afmæli kvennafrídagsins á Akureyri

Þann 15. október 1985 mátti lesa um kvennafrídaginn á Akureyri í Degi, en þá var hinum svokallaða ‘Kvennaáratug’ Sameinuðu þjóðanna að ljúka. Boðað var til kvennafrís í Alþýðuhúsinu frá morgni til kvölds og fjölbreytt dagskrá í vændum. Samkvæmt fréttinni mátti búast við söng, hljóðfæraleik, upplestri, leikþáttum og mörgu fleiru. Kl. 14 var svo efnt til fundar um kjör kvenna. Alla vikuna var verið að opna listasýningar kvenna í Eyjafirði, en samkvæmt fréttinni voru þar fjöldin allur af listakonum að sýna myndlist, spila tónlist, lesa ljóð og margt fleira.

 

Skjáskot úr 127. tölublaði Dags frá 1985. Fengið af www.timarit.is

„Það þarf ekki konur hingað“

Á kvennafrídeginum 1985 var skemmtilegt viðtal við unga konu á Akureyri, Kristínu Jónsdóttur, í Degi. Kristín vann þá sem smiður hjá Trésmíðaverkstæðinu Þór, en það taldist ekki til hefðbundinna kvennastarfa. Bein tilvitnun í viðtalið við Kristínu: „Hvernig hefur gengið að fá vinnu við sitt fag? - Mér var strax vel tekið á Þór. Því er ekki að leyna að þegar ég talaði við menn á öðrum stöðum og bað um vinnu, var svarið: Það þarf ekki konur hingað, eða við höfum konu á skrifstofunni og í kaffinu. Þegar ég sagði þeim að ég væri smiður, reyndu menn að eyða talinu.“

„Hóflegur endir á þessum frekjuáratug sem nú er að líða“

Í sama blaði var spurning dagsins: Hvað finnst þér um að konur leggi niður vinnu í dag? Einn af þeim sem svaraði var Gunnar Egilsson:

Skjáskot úr 127. tölublaði Dags frá 1985. Fengið af www.timarit.is

„Okkur fannst þetta móðgandi og samstaðan tvíefldist“

Það vakti athygli blaðamanns að kollegar hennar hjá Degi árið 1985 höfðu komist á snoðir um áhugavert tilboð yfirmanns hjá Skógerð Iðunnar og skrifað um það frétt í blaðið. Þá hafði verið hengd upp tilkynning á vinnustaðnum, þar sem þeim konum sem ekki tækju sér frí með kynsystrum sínum þann 24. október yrðu borguð tvöföld laun fyrir daginn. Yfirmaðurinn, þá Úlfar Gunnarsson, lét hafa eftir sér í blaðinu að ástæðan væri sú að þeir vildu sýna konum vinnustaðarins hvað þær væru mikilvægar. Auk þess mættu þeir ekki missa mannskap, svo mikið hefði verið selt af skóm undanfarið. 

Starfskona skógerðarinnar, Borghildur Ingvarsdóttir, sat fyrir svörum í sömu frétt og sagði að meirihluti kvennanna ætlaði að ganga út þrátt fyrir þetta tilboð. „Okkur fannst þetta móðgandi og samstaðan tvíefldist. Ég lít á þetta boð sem mútur,“ sagði Borghildur við blaðamann Dags.

Skjáskot úr 127. tölublaði Dags frá 1985. Fengið af www.timarit.is

Kvennafrídagurinn 2005: vinna lögð niður kl. 14.08

Tuttugu árum síðar, eða árið 2005, var næsti kvennafrídagur skipulagður. Kvennahreyfingin boðaði að konur landsins skyldu leggja niður störf kl. 14.08, vegna þess að þá væru þær búnar að vinna til jafns við karlmenn, miðað við launamun kynjanna það árið. Fjöldinn sem samankom í höfuðborginni var gríðarlegur, en um það bil 50.000 manns kom saman á Lækjartorgi. Á Akureyri troðfylltu norðlenskar konur Sjallann, og í frétt Fréttablaðsins frá 25. október 2005 má lesa að á bilinu 2000-2500 konur hafi mætt og margar þurft að standa úti vegna þess að ekki var hægt að koma fleirum inn. Bein tilvitnun í fréttina: „Sumum vinnustöðum á Akureyri var lokað upp úr klukkan 14 í gær og á öðrum gekk starfsemi hægt fyrir sig þar sem vinnuveitendur gáfu konum almennt leyfi til að sækja baráttuhátíðina í Sjallanum. Þar á meðal voru allir stóru vinnustaðirnir á Akureyri: Fjórðungssjúkrahúsið, háskólinn og Akureyrarbær.“ - Fréttablaðið, 25.10.2005.

Kvennafrídagurinn 2010: vinna lögð niður kl. 14.25

Ekki var beðið jafn lengi eftir næsta kvennafrídegi, en hann var haldinn hátíðlegur árið 2010. Þá hafði launamunur kynjanna lagast lítið eitt og konur því hvattar til þess að leggja niður störf kl 14.25, eða 17 mínútum seinna en fimm árum áður. Á Akureyri komu saman hátt í þúsund konur hjá styttunni af Þórunni Hyrnu og Helga magra á Hamarskotsklöppum. Marserað var niður í bæ og haldinn fundur í Hofi.

Kvennafrídagurinn 2010 á Akureyri. Helena Eyjólfsdóttir syngur fyrir hópinn. Snorri Guðvarðsson leikur með á gítar. Mynd: Akureyri.is 

Kvennafrídagurinn 2023

Boðað hefur verið til baráttufundar á Ráðhústorgi þann 24. október í ár. Fundurinn verður á milli 11:00 og 12:00 og konur og kvár mega mæta klukkan 10:30 og í tjaldi á torginu verður aðstaða til þess að útbúa eigið kröfuspjald. Í fundarboðinu segir: „Þrátt fyrir áralanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið.“ - tilvitnun úr viðburðinum ‘Kvennaverkfall á Akureyri’ á Facebook.