Fara í efni
Fréttir

Krónan: akureyrskur kjúklingastaður opnaður

Mama Geee er nýr kjúklingastaður í Krónunni á Akureyri. Á myndinni er einn af starfsmönnum staðarins, Aron Jónasson.

Kjúklingastaðurinn Mama Geee hefur verið opnaður í verslun Krónunnar á Akureyri. Þar verður boðið upp á heilsteiktan kjúkling, djúpsteikta kjúklingabita og meðlæti. 

Það er búið að vanta kjúklingastað á Akureyri í mörg ár og þegar þetta bil losnaði í Krónunni gripum við tækifærið, segir veitingamaðurinn Einar Geirsson eigandi K6 veitinga en fyrirtækið á og rekur fyrir í bænum Rub23, Bautann, Pizzasmiðjuna og Sushi Corner. Rub23 hefur selt sushi í bilinu við hliðina á nýja kjúklingastaðnum og þekkir því fyrirtækið  vel lífið í Krónunni.

Kjúklingabitar, franskar, salat og sósa á nýjum skyndibitastað í Krónunni. Þar er einnig seldur heill grillaður kjúklingur.  

Kjúklingur með djúsí bragði

Við höfum verið að þróa kryddblöndur og marineringar frá því sumar í leit að rétta bragðinu. Ég myndi segja að það sé annar fílingur á kjúklingnum hjá okkur en á hefðbundnum djúpsteiktum kjúklingi. Við leggjum meira upp úr djúsí bragði heldur en að kjúklingurinn sé krispí, það er svona pínu rub fílingur á þessu, segir Einar þegar hann er beðinn um lýsa því sem er í boði hjá Mama Gee. Aðspurður út í nafnið á staðnum, sem hljómar vissulega eins og það sé hluti af einhverri kjúklingakeðju, þá segir Einar að svo sé ekki, enda vilji hann ekki fá neitt lánað frá öðrum heldur bara búa til sitt eigið. Nafnið er að hluta til komið frá snjókrossliði sem Einar og sonur hans eru með sem heitir Gee Maschine en mama nafnið er tenging í mömmuna á heimilinu, konu Einars, Heiðdísi Fjólu Pétursdóttir. 

Mama Geee er í bilinu  við hliðina á Rub 23 í Krónunni en báðir staðirnir eru í eigu K6 veitinga.

Topp hráefni

Samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðilum Mathallarinnar á Glerártorgi mun kjúklingastaðurinn Retro Chicken verða einn af þeim stöðum sem verða í Iðunni mathöll. Einar hræðist ekki heilbrigða samkeppni og bætir við að þeir sem noti topp hráefni og geri hlutina vel standi alltaf upp úr og lifi af. Það hafi a.m.k virkað hjá honum í þau 20 ár sem þau hjónin hafa verið í veitingarekstri á Akureyri.

Eigendur K6 veitinga, hjónin Einar og Heiðdís Fjóla. 20 ár eru síðan þau hófu veitingarekstur á Akureyri.