Krónan: 31 fjölskylda fær matarúttekt
Krónan hefur afhent Velferðasjóði Eyjafjarðarsvæðis 31 gjafakort sem safnað var fyrir í jólasöfnun Krónunnar á aðventunni. Þá bauðst viðskiptavinum að styrkja hjálparsamtök sem sjá um matarúthlutanir í sínu nærsamfélagi í aðdraganda jóla og jafnaði Krónan þá upphæð á móti.
Viðskiptavinir Krónunnar á Akureyri, ásamt Krónunni söfnuðu alls 620 þúsund krónum en samtals söfnuðust 12 milljónir króna í jólastyrkjasöfnun matvöruverslunarinnar um allt land. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Markmið okkar fyrir þessi jól var að styrkja 500 fjölskyldur en í fyrra hlutu 450 fjölskyldur stuðning í formi matarúthlutana. Í samvinnu við okkar kæru viðskiptavini náðum við þessu markmiði og gott betur en 600 fjölskyldur fá matarúthlutun í ár vegna söfnunarinnar,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, í tilkynningunni.
„Þetta er í fjórða sinn sem við bjóðum viðskiptavinum að láta gott af sér leiða á aðventunni og hefur ávallt verið tekið vel í þetta framtak. Jólamánuðurinn getur verið erfiður á mörgum heimilum og því er þetta samvinnuverkefni okkur afar mikilvægt.“
Söfnunin fór þannig fram að viðskiptavinum bauðst að styrkja fyrir 500 krónur eða meira og Krónan greiddi sömu upphæð. Féð rennur beint til hjálparsamtaka í nærsamfélagi sem styðja þau sem þurfa á mataraðstoð að halda fyrir jólin. Styrkirnir eru veittir í formi gjafakorta svo að styrkþegar geti sjálfir valið í sína matarkörfu fyrir hátíðirnar.
Góðgerðarsamtökin sem hljóta styrki í formi gjafakorta frá viðskiptavinum og Krónunni í ár eru Velferðarsvið Reykjanesbæjar, Selfosskirkja, Sjóðurinn góði í Árnessýslu, Stórólfshvolskirkja, Rauðikross Víkursvæðis, Styrktarsjóður Landakirkju, Jólasjóður Fjarðabyggðar, Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis, Mæðrastyrksnefnd Akraness, Mæðrastyrksnefnd Kópavogi, Soroptimistaklúbbur Mosfellssveitar, Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar og Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.