Fara í efni
Fréttir

Kristján og Kolbrún kaupa Sólgarð – framtíð Smámunasafnsins borgið

Hjónin Kristján Vilhelmsson og Kolbrún Ingólfsdóttir hafa keypt félagsheimilið Sólgarð í Eyjafjarðarsveit af sveitarfélaginu. Um leið er ljóst að Smámunasafn Sverris Hermannssonar verður áfram í húsinu í óbreyttri mynd næsta áratuginn hið minnsta. Mikil óvissa hefur ríkt um framtíð safnsins síðan sveitarfélagið ákvað að selja húsið.

„Við kaupum húsið og gerum jafnframt samkomulag við Eyjafjarðarsveit um að Smámunasafnið fái inni í húsnæðinu næstu 10 ár,“ sagði Kristján í samtali við Akureyri.net í dag. Rétt er að geta þess, sem Kristján staðfesti, að samkomulagið er á þá leið að safnið verður í húsinu endurgjaldslaust allan þennan tíma.

Kristján er einn Samherjafrændanna sem svo eru kallaðir; einn stofnenda útgerðarrisans. Þau Kolbrún eru búsett á Hólshúsum í Eyjafjarðarsveit og Kristján segir, aðspurður, að helsta ástæða þess að þau hjón kaupa húsið sé að tryggja framtíð safnsins. 

„Okkar finnst þetta safn vera merkilegt og erum mjög ánægð að geta stuðlað að því að það verði áfram aðgengilegt. Já, við erum fyrst og fremst að þessu vegna safnsins,“ segir Kristján.

Vert er að geta þess í leiðinni að forráðamenn sveitarfélagsins hafa ákveðið að safnið verði opið í sumar eins og venjulega.

Safnið hefur verið mikið í fréttum undanfarið, sem fyrr segir. Hér er ein skemmtileg:

Jodie Foster yfir sig hrifin af Smámunasafni Sverris

Margra grasa kennir á Smámunasafni Sverris Hermannsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson