Fara í efni
Fréttir

Kristján Edelstein bæjarlistamaður

Kristján Edelstein tónlistarmaður - bæjarlistamaður Akureyrar 2022.

Kristján Edelstein tónlistarmaður hefur verið valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2022. Þetta var tilkynnt á Vorkomu, árlegri samkomu Akureyrarbæjar  sumardaginn fyrsta. Á Vorkomunni eru einnig veittar ýmsar viðurkenningar, sem greint er frá hér að neðan.

Vorkoman var í netheimum í dag, eins og síðustu ár og hægt er að horfa á myndband frá samkomunni í heild með því að smella á tengil neðst í fréttinni.

Eftirfarandi tilkynning var birt í dag á vef Akureyrarbæjar:

  • Kristján fæddist í Freiburg í Þýskalandi þann 18. ágúst 1962 og hefur haft tónlist að aðalstarfi síðan árið 1981. Hann stundaði klassískt nám á gítar og píanó í Tónlistarskóla Reykjavíkur og síðar rafgítarnám við Berklee College of Music í Boston. Ungur varð Kristján landskunnur gítarleikari og starfaði með þekktum hljómsveitum, auk þess að leika inn á fjölda hljómplatna fyrir þjóðþekkta tónlistarmenn. Kristján mun verja starfslaunatímabilinu í tónsmíðar, útsetningar, hljóðupptökur og flutning á eigin tónsmíðum. Hann mun kynna nýja tónsmíð á vefmiðlum í hverjum mánuði þar sem mynd og hljóðskrá verður varpað á netið og opnað fyrir gagnvirkar umsagnir og samræður. Að loknu starfsári verða þessar nýju tónsmíðar gefnar út á hljómplötu og útgáfutónleikar eru áformaðir í kjölfarið.
  • Heiðursviðurkenningar Menningarsjóðs Akureyrar hlutu Þröstur Ásmundsson, fyrrverandi formaður menningarmálanefndar, kennari og þýðandi, og Aðalsteinn Bergdal, menningarfrömuður.
  • Byggingalistaverðlaun Akureyrar hlaut Gísli Jón Kristinsson, arkitekt FAÍ fyrir ævistarf í þágu byggingalistar á Akureyri undanfarna fjóra áratugi.
  • Árlega veitir Akureyrarbær sérstaka viðurkenningu vegna mannréttindamála og í ár voru það annars vegar einstaklingar og hins vegar stofnun sem hlutu viðurkenninguna. Fyrri viðurkenninguna hlaut Norðurslóðanetið sem hefur ötullega sinnt málefnum sem snerta kynjajafnrétti á norðurslóðum. Seinni viðurkenninguna hlutu þær Berglind Júlíusdóttir og Sigríður Edda Ásgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingar og meðlimir í Rauða krossinum á Akureyri, fyrir framlag sitt til verkefnisins Frú Ragnheiður á Akureyri.
  • Þess er loks að geta að Menningarsjóður Akureyrar styrkir árlega ýmis menningarverkefni og í ár voru veittir 18 verkefnastyrkir fyrir 4.350.000 kr. og 9 samstarfssamningar fyrir 3.250.000 kr. Sérstök athygli er vakin á því að enn er mögulegt að sækja um verkefnastyrki í sérstakan sjóð fyrir ungt og efnilegt listafólk, fyrir smærri verkefnum á meðan fjármagn leyfi

Smellið hér til að horfa á myndband frá Vorkomunni.