Krefjast tafarlausra viðbragða vegna lokana
Aðilar að Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi eru Slökkvilið Akureyrar, Sjúkrahúsið á Akureyri og Norlandair. Ályktun Miðstöðvar sjúkraflugs á Íslandi í heild:
Krafa Miðstöðvar Sjúkraflugs um tafarlaus viðbrögð vegna lokana á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar
Þann 10. janúar sl. var tilkynnt um verulegar takmarkanir á flugumferð um Reykjavíkurflugvöll. Sú takmörkun er fólgin í lokun tveggja flugbrauta, 13 – 31, í myrkri vegna áhrifa trjágróðurs á aðflugs- og brottflugsfleti umræddra flugbrauta. Þann 6. febrúar síðastliðinn var svo tilkynnt að innan 48 klukkustunda verði flugbrautunum lokað fyrir allri flugfumferð, burtséð frá birtuskilyrðum. Sú lokun mun því taka gildi laugardaginn 8. febrúar.
Í kjölfar þeirra takmarkana sem settar voru á notkun umræddra flugbrauta 10. janúar sl. sendi Miðstöð Sjúkraflugs frá sér yfirlýsingu þar sem lýst var áhrifum takmarkana á aðgengi sjúklinga af landsbyggðinni að nauðsynlegri og oft á tíðum bráðri læknisþjónustu á Landspítala. Það er augljóst og óumdeilt að algjör lokun á umræddum flugbrautum mun hafa mun verulegar afleiðingar á lífslíkur og batahorfur fjölmargrar bráðveikra og alvarlega slasaðra sjúklinga sem þurfa á tímaháðum inngripum að halda á Landspítala þar sem önnur sjúkrahús á landinu geta ekki veit viðlíka meðferð. Einnig er augljóst að keðjuverkandi afleiðingar umræddra lokana munu valda fráflæðisvanda á Landspítala, þrengja mun að legurýmum annarra sjúkrahúsa og tafir munu verða á aðgerðum og rannsóknum sjúklinga af landsbyggðinni.
Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þessara lokana, enda er óheft aðgengi sjúkraflugvéla að Reykjavíkurflugvelli í mörgum tilfellum lífsnauðsynlegt fyrir veika og slasaða af stærstum hluta landsins. Líkt og fram kom í fyrri yfirlýsingu frá hópnum eru hátt í 650 sjúklingar fluttir á ári til Reykjavíkur með sjúkraflugvélum af landsbyggðinni. Í um 45% tilfella er um að ræða sjúklinga sem nauðsynlega þurfa að komast í bráða þjónustu á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, þar með talið sjúklingar sem þurfa að komast í tímaháð inngrip, s.s. vegna bráðra kransæðaþrenginga, heilablóðfalla og háorkuáverka. Í slíkum tilfellum er ástand sjúklinga með þeim hætti að lengdur flutningstími sem myndi hljótast vegna flutnings frá Keflavíkurflugvelli, hvort sem um er að ræða landleiðina með sjúkrabíl eða með þyrlu, getur dregið verulega úr lífslíkum eða batahorfum viðkomandi.
Út frá gögnum um flug á Reykjavíkurflugvelli eru flugbrautir 13 og 31 notaðar í um 25% af öllum hreyfingum á flugvellinum. Sé það heimfært yfir á sjúkraflugið má gera ráð fyrir að það hafi áhrif á ríflega 160 flug á ári, eða um 70 sjúklinga í hæstu forgangsflokkum miðað við fjölda sjúklinga árið 2024. Um helmingur þessa sjúklingahóps er fluttur í tímaháð og bráð inngrip þar sem allar tafir teljast ógna lífslíkum og batahorfum. Af ofangreindu er það skýr og augljós krafa að aðilar málsins, þ.e. Reykjavíkurborg, Innviðaráðuneyti, ISAVIA og Samgöngustofa, axli ábyrgð og tryggi opnun og rekstraröryggi flugbrauta 13 og 31 með eins tafarlausum hætti og mögulegt er.