Krefja útgerðina um 3,5% viðbótarframlag
Fundur formanna aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands, sem haldinn í Vestmannaeyjum 7. og 8. október, ítrekar kröfugerð sína á hendur útgerðarmönnum í yfirstandandi kjaraviðræðum. Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Krafa aðildarfélaganna er skýr um að sjómenn fái inn í kjarasamning sinn ákvæði um að útgerðin greiði 3,5% viðbótarframlag í lífeyrissjóði sjómanna með sama hætti og launafólk á almenna vinnumarkaðnum hefur þegar samið um við atvinnurekendur.
Jafnframt fái sjómenn sömu hækkanir á kauptryggingu sjómanna og aðra kaupliði og samið var um á almenna vinnumarkaðnum árið 2019.
Fundurinn felur formanni Sjómannasambandsins að hefja undirbúning að aðgerðum gegn útgerðarmönnum, í samráði við aðildarfélögin, til að knýja á um lausn kjaradeilunnar milli sjómanna og útgerðarmanna.“