Kiwanismenn gefa hjálma og reiðhjól
Kiwanisklúbbar um land allt gáfu í gær börnum, sem í vor ljúka 1. bekk grunnskóla, hlífðarhjálma eins og tíðkast hefur til áratuga. Þá færðu félagar í Kiwanisklúbbnum Kaldbak á Akureyri tveimur heppnum börnum glæsileg reiðhjól að gjöf.
Við Eyjafjörð fengu hátt í 300 börn hjálma frá Kaldbaksmönnum, á svæðinu frá Dalvík í vestri til Grenivíkur í austri. Úr þeim hópi voru svo dregin tvö nöfn og Írena Lind Marteinsdóttir og Guðlaugur Gísli Fannarsson voru boðuð að félagsheimili Kaldbaks á Akureyri þar sem reiðhjólin voru afhent.
Þetta er í 31. skipti sem Kaldbaksmenn gefa börnum hlífðarhjálma. „Við byrjuðum á þessu hér á Akureyri. Ég fékk hugmyndina 1991, fór í fyrirtæki og safnaði peningum. Það var svo 2005 sem hreyfingin kom inn í þetta á landsvísu,“ sagði Stefán Jónsson við Akureyri.net í gær, en hann er nú formaður hjálmanefndar Kaldbaks. Eimskip kom snemma að verkefninu með Kiwanismönnum að verkefninu.
Stefán Jónsson, til vinstri, formaður hjálmanefndar Kiwanisklúbbsins Kaldbaks, og Júlíus Fossberg afhentu börnum hjálma við Glerárskóla.
Ísak Andri Jóhannsson fékk hjálm við skólann sinn, Oddeyrarskóla. Með honum er Helgi Jón Jóhannesson, félagi í Kiwanisklúbbnum Kaldbak.