Fara í efni
Fréttir

Kirkjutröppurnar kláraðar næsta vor

Viðgerð og endurbótum á tröppunum frá Kaupvangsstræti upp að Akureyrarkirkju lauk ekki 15. október eins og glöggir lesendur og vegfarendur um miðbæ Akureyrar hafa væntanlega tekið eftir. Stefnt er að því að ljúka verkinu vorið 2024 að því er fram kemur í stöðuskýrslu umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar sem lagt var fyrir umhverfis- og mannvirkjaráð í vikunni.

Samið við Lækjarsel

Verkið var boðið út sem heild og tilboð opnuð 26. apríl. Aðeins eitt tilboð barst. Lækjarsel ehf. bauðst til að vinna verkið fyrir tæpar 89 milljónir króna. Samningur við Lækjarsel var staðfestur 14. júní, en ákveðið að skipta verksamningnum á milli Akureyrarbæjar og Regins, sem er eigandi gömlu náðhúsanna, húsnæðisins undir tröppunum. Endanlegur verksamningur bæjarins við Lækjarsel var undirritaður 12. júlí og var upp á rúmar 60,7 milljónir króna. Tilboð Lækjarsels var frávikstilboð og innihélt ekki jarðvinnu og lóðarfrágang. Samið var við Finn ehf. um jarðvinnu og niðurbrot og Garðverk ehf. um þökulagnir og stígagerð.

Fjárveiting til verksins var áætluð 70 milljónir á árinu 2023 og aðrar 70 milljónir á árinu 2024, en auk verksamnings við Lækjarsel og aðra verktaka upp á tæpar 77 milljónir króna felst áætlaður kostaður til dæmis í efniskaupum umhverfis- og mannvirkjasviðs upp á 32 milljónir, hönnun, umsjón og eftirliti upp á 15 milljónir, magnbreytingum, auka- og viðbótarverkum upp á 12 milljónir ásamt fleiru.

Hafist handa í lok júní

Framkvæmdir við verkið fóru ekki af stað fyrr en í lok júní og hafist handa við að rífa gömlu tröppurnar 28. júní eftir að lokað hafði verið fyrir alla umferð um tröppurnar. Hluti af verkinu var lagfæring á stíg frá kirkjutröppunum að Sigurhæðum, uppsetning áningarstaðar og lagfæring á handriði við stíginn. Landmótun og stígagerð var lokið um mánaðamótin júlí-ágúst.


Niðurrif gömlu trappanna hófst 28. júní. Mynd: Haraldur Ingólfsson. 

Í stöðuskýrslunni kemur fram að ljóst sé að sú áætlun að verklok yrðu 15. október hafi verið bjartsýn. Í upphafi hafi orðið tafir á undirritun samnings og óvissa um hvaða verktakar gætu tekið að sér þá verkþætti sem aðalverktaki bauð ekki í. Á verktímanum hafi síðan komið upp ófyrirséð vandamál sem varð að leysa og þau hafi tafið verkið, meðal annars þegar í ljós kom að steypa þurfti utan á vegg sem grafið var frá og snýr að efri hluta trappanna. Verkið hafi dregist vegna framkvæmda við þéttingu og frágang veggjarins, auk þess sem brjóta þurfti hluta þaksins undir tröppunum og steypa upp að nýju.


Ófyrirséð úrlausnarefni töfðu verkið, meðal annars að steypa þurfti utan á þennan vegg. Myndin er skjáskot úr stöðuskýrslunni.
 

Akureyri.net hefur áður sagt frá töfum á verkinu vegna ófyrirséðra úrlausnarefna, eins og það var orðað þá.

Þegar grafið var frá vegg að undirgöngum við hótelið kom í ljós að steypa þurfti utan á hluta veggjarins svo hægt væri að bræða vatnsvörn á vegginn og þá strax farið í járna- og steypuvinnu. Vinnu við þéttingar og einangrun veggjarins, drenlögn og fyllingu að henni var lokið 15. september.

Efri hluti trappanna forsteyptur

Samkvæmt stöðuskýrslunni er nú lokið við að þökuleggja ofan og neðan við nýjan stíg að Sigurhæðum og borun fyrir festingum handriðs er í undirbúningi. Veggurinn og undirgöng hafa verið vatnsþétt og öllum lögnum komið fyrir. Yfirborð þaks náðhúsanna er tilbúið fyrir bræðslu þakdúks og reiknað með að steypa tröppur ofan á þakið þegar bræðslu lýkur. Stallar fyrir tröppurnar hafa verið jafnaðir og hæðarsettir.

Ætlunin er að efri hluti trappanna verði forsteyptur. Tilboð hefur verið fengið í það verk og verið að ljúka undirbúningi gagna vegna þess.


Teikning AVH teiknistofu, skjáskot úr stöðuskýrslunni. Mismunandi litasamsetningar verða við hæðarbreytingar til að auðvelda sjónskertum umferð um tröppurnar.