Keyrðu löglega til að sleppa við myndatöku
Tvær hraða- og „rauðljósamyndavélar“ við Hörgárbraut eru teknar í notkun í dag, 19. október. Myndavélarnar eru við gangbrautarljós við Stórholt.
Búnaðurinn var settur upp síðastliðið vor og er nú kominn í fulla virkni. Með stafrænni myndatöku eru upplýsingar um hraðabrot og akstur mót rauðu ljósi sendar samstundis til lögreglunnar. Ekki er tekin mynd nema um brot sé að ræða, skv. upplýsingum frá lögreglunni.
„Tilkoma myndavélanna er liður í aðgerðaáætlun til að bæta umferðaröryggi á svæðinu. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í fyrra tillögur að úrbótum á svæðinu milli Glerár og Undirhlíðar. Mikil umferð er alla jafna um þennan kafla og hafa orðið of mörg slys og óhöpp á undanförnum árum,“ segir á vef Akureyrarbæjar.
Uppsetning og rekstur myndavélanna er samstarfsverkefni Lögreglunnar á Norðurlandi eystra, Akureyrarbæjar og Vegagerðarinnar. Markmiðið er að draga úr ökuhraða og fækka brotum vegna aksturs gegn rauðu ljósi á þjóðveginum.
Meðal annarra aðgerða sem gripið hefur verið til eru skilti með með upplýsingum um raunhraða ökutækja, hraðamælingar og bættar merkingar. „Auk þess var trjám plantað í miðeyju en talið er að tré á milli akreina auki þéttbýlisupplifun ökumanna og dragi úr ökuhraða.“
Myndavélarnar tvær á Hörgárbraut við Stórholt. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.