Kertum fleytt – 79 ár frá sprengjunni í Nagasaki
Kertum verður fleytt víða um land í kvöld, föstudagskvöld, til að minnast fórnarlamba kjarnorkusprenginganna í Japan 1945. Bandaríkjamenn vörpuðu sprengjum á borgirnar Hiroshima og Nagasaki með þeim afleiðingum að nokkur hundruð þúsund manns létust eða örkumluðust og borgirnar urðu rústir einar.
Á Akureyri verður safnast saman við Leirutjörn í Innbænum. Klukkan 22.00 mun Ragnar Sverrisson harðfisksali og húmanisti flytja hugvekju gegn stríði og hernaðarstefnu, á hólnum vestan Leirutjarnar. Flotkerti verða þar til sölu og eftir hugvekjuna verður þeim fleytt út á tjörnina þar sem þau brenna fyrir friði.
Í dag eru 79 ár síðan seinni sprengjunni var varpað, á Nagasaki 9. ágúst 1945. Auk þess að minnast fórnarlambanna í Japan safnast fólk saman „til að vara við nýjum stríðum og yfirvofandi sprengingum, núna. Því kannski hefur heimurinn aldrei frá því 1945 staðið nær kjarnorkustríði en í ágúst 2024,“ segir í fréttatilkynningu frá Samstarfshópi um frið, sem stendur fyrir viðburðunum í kvöld.