Fara í efni
Fréttir

Bærinn taki þátt í að opna Norðurslóðasetrið

Úr Norðurslóðasetri Arngríms B. Jóhannssonar, þar sem marga góða gripi var að finna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ríkisstjórn Íslands ákvað í morgun að skipa nefnd um undirbúning að stofnun og byggingu Norðurslóðaseturs í Reykjavík sem yrði kennt við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrum forseta Íslands, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Áformin eru í samræmi við tillögur Grænlandsnefndar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra en þar er lagt til að Norðurslóðasetur verði framtíðarheimili Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle.

Bæjaryfirvöld á Akureyri settu saman ýmsar tillögur í kjölfar Grænlandsskýrslur og kynntu Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, í byrjun vikunnar, þar á meðal að Norðurslóðasetur yrði sett upp á Akureyri og bærinn kæmi að stofnun þess með því að leggja til húsnæði.

Á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða: „Bæjarstjórn leggur ríka áherslu á að hlutverk bæjarins sem miðstöðvar norðurslóðastarfs verði eflt til muna og byggt á þeim góða grunni sem fyrir er. Að mati bæjarstjórnar getur Akureyrarbær, í samstarfi við stofnanir á Norðurlandi, leikið lykilhlutverk í auknu og víðtækara samstarfi Íslands og Grænlands, þjóðunum báðum til heilla. Allir nauðsynlegir innviðir eru til staðar á Norðurlandi og Akureyri er miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi, sem gerir svæðið mjög vel í stakk búið til að takast á við krefjandi og metnaðarfull verkefni.“

Bæjarfulltrúar nefndu á fundinum Norðurslóðasetur sem Arngrímur B. Jóhannsson athafnamaður opnaði á Akureyri 2017, en hefur nú lokað tímabundið. Andri Teitsson, Lista fólksins, sagði Akureyrarbæ styðja við bakið á ýmsum söfnum og ef til vill ætti að huga að því að endurskoða safnastefnuna, ef Norðurslóðasafn væri lykill að því að skapa bænum stöðu og tækifæri gagnvart Grænlandi.

Gunnar Gíslason, oddviti sjálfstæðismanna, sagði Akureyringa verða að sýna frumkvæði, Norðurslóðasafn Arngríms væri nú í gámum „og við þurfum að skoða hvort við getum á einhvern hátt stigið inn í það mál og komið því safni hér upp,“ sagði hann, sem vísi að stærra safni. Gunnar sagði Akureyrarbæ ekki hafa haft neina aðkomu að Norðurslóðasetrinu, „það var einkaframtak Arngríms Jóhannssonar, ég held það yrði líka ákveðin virðing við hann ef við stígum þetta skref.“