Fara í efni
Fréttir

KEA hagnaðist um 1,4 milljarða í fyrra

Fjárfestingafélagið KEA hagnaðist um 1.430 milljónir króna á síðasta ári. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins í fyrrakvöld. Tilkynning um afkomuna og fleira í rekstrinum var birt á vef KEA í gær.

Í tilkynningunni segir:

  • Hreinar fjárfestingatekjur voru 1.727 milljónir króna og hækkuðu um 670 milljónir króna á milli ára.
  • Eigið fé var tæpir 11 milljarðar og heildareignir námu tæplega 11,2 milljarði króna.
  • Eiginfjárhlutfall var rúmlega 98%.
  • Í samræmi við stefnu félagsins var eignasafn þess einfaldað á árinu, eignir seldar og verkefnum fækkað.
  • Verulega var aukið við vægi fasteignatengdra verkefna þegar dótturfélag KEA keypti 119 íbúðir á Akureyri af Íveru fyrir 5 milljarða.
  • Kaup íbúðanna var fyrsta skrefið í því að byggja upp íbúðafélag sem leigir út íbúðir á almennum markaði.
  • Auk þess var fjárfest í stóru fasteignaþróunarverkefni við Viðjulund á Akureyri.
  • Á árinu voru seldir eignarhlutir í Slippnum Akureyri, Norðurböðum og Íslenskum verðbréfum.
  • Aukið var við hlut félagsins í Ferro zink og á KEA nú allt hlutafé félagsins.
  • Jafnframt var hlutur félagsins í Norlandair aukinn og er nú 45% og er KEA stærsti eigandi félagsins.
  • Heilt yfir gekk félögum sem KEA á eignarhluti í vel í sínum rekstri. Áfram verður unnið í því að einfalda eignasafnið og fækka en um leið stækka þau verkefni sem félagið hefur með höndum.

Halldór Jóhannsson er framkvæmdastjóri KEA og stjórnarformaður Eiríkur Haukur Hauksson.