Katrín ráðin stefnu- og gæðastjóri við HÍ
Akureyringurinn Katrín R. Frímannsdóttir hefur verið ráðin í starf stefnu- og gæðastjóra við Háskóla Íslands. Stefnu- og gæðastjóri starfar náið með æðstu stjórnendum skólans og er yfirmaður teymis á rektorsskrifstofu sem starfar að þessum málaflokkum, að því er segir á vef skólans.
Katrín hefur búið í Bandaríkjunum síðustu 35 ár. Hún hefur lokið MA-námi í skólastjórnun frá University of Minnesota og doktorsnámi í matsfræði frá sama skóla. Katrín starfaði sem deildarstjóri gæðaeftirlits hjá Mayo Clinic College of Medicine and Science í Bandaríkjunum, þar sem hún hannaði, skipulagði og innleiddi gæðakerfi fyrir menntakerfi skólans og sat í yfirstjórn vottunarnefnda. Áður starfaði hún sem matsfræðingur við Mayo Clinic, Center for Clinical and Translational Science þar sem hún innleiddi einnig gæðakerfi. Auk þess hefur hún sem matsfræðingur haft yfirumsjón með mati á læsisverkefni hjá Menntamálastofnun. Sem sjálfstæður matsfræðingur hefur Katrín einnig haft yfirumsjón með áhrifamati á Rannsóknarsjóði fyrir Gæðaráð íslenskra háskóla og unnið að ýmsum öðrum verkefnum tengdum bæði ytra mati og sjálfsmati.
„Katrín hefur þegar hitt sitt teymi og mun kynna sig fyrir stjórnendateymum og starfsfólki fljótlega eftir að hún hefur störf þann 1. desember n.k.,“ segir á vef Háskóla Íslands. „Það er ljóst að Katrín verður öflugur liðsmaður innan raða stjórnenda við Háskóla Íslands enda hefur framúrskarandi menntun, þekkingu og reynslu af þróun og gæðastarfi á háskólastigi í alþjóðlegu umhverfi. Við bjóðum Katrínu hjartanlega velkomna í Háskóla Íslands.“
Vert er að geta þess til gamans að Karl, tvíburabróðir Katrínar, var í sumar ráðinn skólameistari Menntaskólans á Akureyri.