Kaþólska kirkjan á Akureyri stækkuð
Stækkun er fyrirhuguð á húsnæði kaþólsku kirkjunnar á Akureyri. Að sögn Jürgen Jamin, sóknarprests í Péturssókn á Norðurlandi, er um að ræða stækkun upp á 30 fm í formi glerskála á baklóð Péturskirkju.
Glerskálinn mun tengjast safnaðarheimilinu sem er í kjallara kirkjunnar. Með þessari léttu viðbygginginu tvöfaldast safnaðarheimilið að stærð en ekki veitir af plássinu, að sögn Jamin, því söfnuðurinn hefur stækkað hratt á síðustu árum í takt við aukinn fjölda kaþólskra innflytjenda. Viðbyggingin verði því kærkomin.
Glerskáli mun rísa norðanmegin við Péturskirkju og safnaðarheimilið verður tvöfalt stærra en það er nú. Myndir: Snæfríður Ingadóttir og Kollgáta
Messukaffi alla sunnudaga
Stækkun safnaðarheimilisins við Péturskirkju á Akureyri er mikilvæg fyrir söfnuðinni fyrir tvær sakir. Í fyrsta lagi þá vantar sárlega aðstöðu fyrir barna- og fermingarfæðslu en eins er alltaf kirkjukaffi eftir messu á sunnudögum og núverandi aðstaða er löngu sprungin. „Það er mikilvægt að koma saman í messu og biðja saman, en það er ekki síður mikilvægt að hittast eftir messu, tala saman og spjalla,“segir Jürgen. Hann segir Filippseyinga vera mjög veisluglatt fólk og messukaffið alltaf veglegt. „Hjá okkur, í kaþólskum kirkjum á Norðurlöndunum þá er fastur siður að hafa messukaffi eftir messu þar sem fólk kemur oft langt að og þarf hreinlega á hressingu að halda áður en það heldur aftur heim til sín.“
Safnaðarheimilið í kjallara kirkjunnar er löngu sprungið og verður viðbyggingin því kærkomin.
Umrædd byggingaráform hafa verið samþykkt af bæjaryfirvöldum og nú er verið að leita tilboða hjá byggingaverktökum. Vonast er til þess að farið verði í verkið í sumar eða næsta sumar. Jürgen segir framkvæmdin sé að hluta til greidd af framlagi safnaðarmeðlima en eins sé verið að leita styrkja í útlöndum hjá hjálparstofnunum sem styðja starf kaþólsku kirkjunnar á Norðurlöndum. „En safnaðarfólk okkar er mjög duglegt að leggja sitt að mörkum og t.d. safnaði söfnuðurinn fyrir nýju altari, nýju lespúlti og nýjum skírnarfonti áður en ég kom hingað. Þá var safnað fyrir nýju orgeli í kirkjuna fyrir tveimur árum.“