Fara í efni
Fréttir

Karlalið KA meistari í áttunda skipti

Bikarinn á loft í KA-heimilinu í gær. Myndir með fréttinni: Ármann Hinrik.

Sigurganga KA í blakinu hélt áfram í gærkvöld, eins og fram hefur komið. KA vann Þrótt úr Reykjavík í jöfnum og spennandi leik með þremur hrinum gegn einni. Áður hafði KA unnið fyrsta leikinn 3-0 og annan leikinn á útivelli 3-2. Vinna þurfti þrjár hrinur til að landa sigri í einvíginu og Íslandsmeistaratitlinum þar með. 

Tvær hrinur unnust með minnsta mun

Fyrsta hrinan var hnífjöfn og munurinn mestur fjögur stig um miðja hrinuna. Þróttarar gerðu sig líklega til að vinna hana og voru með forystu á lokakaflanum eftir að jafnt var, 18-18. Þróttara vantaði eitt stig upp á að klára hrinuna, staðan 22-24,, en náðu ekki að hnýta endahnútinn. KA skoraði fjögur síðustu stigin og vann 26-24 eftir upphækkun.

KA fór hins vegar vel af stað í annarri hrinu, komst í 4-0 og hafði forystu allan tímann. Þróttarar náðu að minnka muninn í 24-22 undir lokin, en síðasta stigið var KA-manna og staðan í leiknum orðin vænleg, 2-0.

Þróttarar voru þó ekki alveg á því að fara tómhentir heim eftir að hafa tapað tveimur hrinum og sigu fram úr í seinni hluta þriðju hrinunnar, unnu hana að lokum 25-18.

Fjórða hrinan varð á endanum æsispennandi eftir að KA hafði haft frumkvæðið lengst af án þess að slíta sig langt frá gestunum. Jafnt var á öllum tölum frá 21-21 upp í 24-24, en KA skoraði tvö síðustu stigin, vann hrinuna, vann leikinn 3-1 og einvígið um Íslandsmeistaratitilinn þar með 3-0.

KA - Þróttur 3-1 (26-24 25-22 • 18-2526-24)
Leikskýrslan

Niðurstaðan í einvíginu er því 3-0 sigur KA eftir spennandi viðureign í KA-heimilinu í gærkvöld. 

Áttundi Íslandsmeistaratitillinn

Þessi Íslandsmeistaratitillinn er sá áttundi sem karlalið KA vinnur. KA varð fyrst Íslandsmeistari í karlaflokki 1989 og síðan 1991, 2010, 2011, 2018, 2019 og 2023. KA er nú Íslandsmeistari bæði í karla- og kvennaflokki og er þetta í þriðja skiptið sem það gerist. Bæði liðin urðu áður Íslandsmeistarar 2019 og 2023.

Karlaliðið er nú handhafi þriggja titla af fjórum sem keppt er um í blakinu, eru bikarmeistarar, deildarmeistarar og Íslandsmeistarar, en Afturelding vann leikinn um meistara meistaranna síðastliðið haust enda var KA ekki í þeim leik þar sem þeir voru hvorki Íslands- né bikarmeistarar á síðustu leiktíð.

Ármann Hinrik var á leiknum í gærkvöld með myndavélina og fangaði stemninguna. 

Spilandi þjálfari KA, Miguel Mateo Castrillo, Íslandsmeistari sem leikmaður og þjálfari í karlaflokki og sem þjálfari kvennaliðsins. Myndir: Ármann Hinrik. 

Sigurinn í höfn. KA vann bæði fyrstu og fjórðu lotuna eftir upphækkun, 26-24.

Gísli Marteinn Baldvinsson var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar.

Íslandsmeistarar í blaki karla 2025. Aftari röð frá vinstri: Alexander Arnar Þórisson (7), Marcel Pospiech (5), Miguel Mateo Castrillo (3), spilandi þjálfari, Gísli Marteinn Baldvinsson (13), Sölvi Páll Sigurpálsson (9) og Julia Bonet Carreras aðstoðarþjálfari. Fremri röð frá vinstri: Oscar Fernández Celis (8), Ágúst Leó Sigurfinnssson (4), Kristófer Magni Magnússon (18), Mateusz Jeleniewski (10), Hákon Freyr Arnarsson (11), Antoni Jan Zurawski (1) og Zdravko Kamenov (19). Mynd: Ármann Hinrik.