Kærkomin viðbót við hjálparstarf bæjarins
Í haust opnaði nýr Nytjamarkaður á Akureyri, Norðurhjálp. Markaðurinn er staðsettur við Hvannavelli 10, í húsinu sem eitt sinn hýsti Hjálpræðisherinn. Í dag er húsið í eigu BB verktaka og aðstandendur Norðurhjálpar leigja það fyrir markaðinn. Guðbjörg Olufinedóttir Thorsen er ein fjögurra kvenna sem áttu hugmyndina að verkefninu, en hún segir að markmiðið með Norðurhjálp sé að aðstoða þau sem lítið hafa á milli handanna á svæðinu.
Auk Guðbjargar eru þær Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir, Stefanía Fjóla Elísdóttir og Anna Jóna Vigfúsdóttir sem standa að markaðnum. Þær njóta einnig aðstoðar þriggja sjálfboðaliða til þess að afgreiða með þeim í búðinni ef þarf.
Guðbjörg Olufinedóttir Thorsen, til vinstri, og Árdís Indriðadóttir, einn sjálfboðaliðanna sem aðstoðar við afgreiðslu á markaðnum.
„Við erum allar með bakgrunn sem sjálfboðaliðar,“ segir Guðbjörg. „Þessi hugmynd kom eiginlega upp í fyrra, í byrjun árs. Eftir mikinn undirbúning opnuðum við svo 26. október síðastliðinn og erum svo ánægðar með góðar viðtökur.“ Guðbjörg segir að þær hafi átt töluverðan grunn af dóti til þess að hafa til sölu á markaðnum til þess að byrja með, en fjölmargir hafi gefið þeim dót. Það kennir ýmissa grasa á markaðnum, það er mikið af fatnaði, smávöru, heimilisdóti, húsgögnum, leikföngum, skarti og skrauti. Einnig er flott úrval af bókum, dvd diskum, geisladiskum, vínylplötum og tímaritum. Í þeirri deild er hægt að tylla sér í sófa með kaffibolla.
„Núna erum við með mikið af jólaskrauti í boði,“ segir Guðbjörg. „Venjulega værum við með meira af húsgögnum en við geymum þau fram yfir jól.“ Fyrir utan húsið er kominn gámur til þess að hægt sé að geyma lagerinn, en Guðbjörg segir að starfsmenn Norðurhjálpar taki við alls kyns hlutum. „Við erum nú samt vandlátar, við tökum ekki alveg við hverju sem er. En flestu!“
Það eru fleiri sem hafa ekki nóg á milli handanna
Guðbjörg hefur mikla reynslu af því að starfa sem sjálfboðaliði í svipuðu umhverfi, við nytjamarkaði. Hún segir að sín tilfinning sé að þörfin fyrir aðstoð sé mun meiri en áður. „Það eru fleiri sem hafa ekki nóg á milli handanna. Mín tilfinning er líka að fólk eigi erfiðara með að biðja um hjálp, eins og það sé einhver skömm í því.“
Við höfum líka verið að styrkja fólk með Bónuskortum. Það þarf bara að koma til okkar og spjalla við okkur.
Norðurhjálp hefur getað stutt við bakið á mörgum síðan dyrnar voru opnaðar í október. Þau sem biðja um hjálp vegna fjárhagslegra erfiðleika fá hlýjar móttökur. „Ef við eigum hluti eða fatnað sem fólk getur notað þá fá þau það endurgjaldslaust. Við höfum líka verið að styrkja fólk með Bónuskortum. Það þarf bara að koma til okkar og spjalla við okkur.“ Guðbjörg segir að þær fylli vissulega út í eyðublað fyrir sitt eigið bókhald, en annar sér fyllstu þagnarskyldu gætt.
Markaður Norðurhjálpar er opinn alla virka daga frá 12.30 - 17.30. Síðan er opið á laugardögum frá 13-16 en lokað á sunnudögum. Síðasti opnunardagur fyrir jól verður 21. desember og aftur verður opnað þann 8. janúar.