Fara í efni
Fréttir

Jón vélfræðingur og norskt kóngafólk 1905

SÖFNIN OKKAR – XXXIV

Frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Póstkort þetta var sent til Jóns Sigurðssonar (1883-1940) árið 1906 og er varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Jón var þá við nám í Hamborg í Þýskalandi. Hann var vélfræðingur og bjó í Hrísey frá 1908.

Á póstkortinu eru myndir af kóngafólki, þeim Hákoni VII, Matthildi drottningu og syni þeirra krónprinsinum Ólafi. Póstkortið var eitt af mörgum sem gefin voru út í tilefni þess að Hákon varð konungur Noregs árið 1905.

Hákon var danskur prins, sonur Friðriks VIII Danakonungs og Lovísu drottningar. Hann fæddist 3. ágúst 1872 og hét fullu nafni Kristján Friðrik Karl Georg Valdimar Axel en venjulega var talað um Karl prins.

Svíþjóð og Noregur voru í konungssambandi til 1905 en þá slitu Norðmenn þau tengsl og í stuttu máli varð Karl prins af Danmörku Hákon VII Noregskonungur. Hákon ríkti til dauðadags 21. september 1957.

Hákon og Matthildur gengu í hjónaband árið 1896. Matthildur (e. Maud) drottning fæddist sem Matthildur prinsessa af Wales 26. nóvember 1896. Faðir hennar var prinsinn af Wales, seinna Játvarður VII konungur Stóra Bretlands, Írlands og breska samveldisins. Móðir hennar var Alexandra prinsessa af Wales, seinna drottning. Matthildur lést 20. nóvember 1938.

Hákon og Matthildur eignuðust soninn Alexander Játvarð Kristján Friðrik árið 1903. Við fæðingu var hann Alexander prins af Danmörku en þegar faðir hans tók við konungdómi í Noregi fékk Alexander nafnið Ólafur og titilinn krónprins. Ólafur tók við embættinu þegar faðir hans lést 1957 og ríkti til dauðadags 1991 en þá tók sonur hans og núverandi Noregskonungur Haraldur V við krúnunni.

Jón Sigurðsson var einn af frumkvöðlum vélvæðingar íslenskra báta og var leiðbeinandi á níu vélgæslunámskeiðum Fiskifélags Íslands á árunum 1926-1939.

Meira má lesa um Jón og sjá hvaða skjöl frá honur eru varðveitt á Héraðsskjalasafninu á þessari slóð: 2020-16 Jon Sigurdsson (1883-1940)1400.pdf (herak.is)