Fara í efni
Fréttir

Jón Björn gefur kost á sér í 2. sæti Framsóknar

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri í Fjarðabyggð og ritari Framsóknarflokksins, tilkynnti í morgun að hann gefi kost á sér í annað sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingkosningarnar í haust.

„Framsóknarflokkurinn á að vera leiðandi stjórnmálaafl í okkar kjördæmi og ég er tilbúinn til að leggja mitt af mörkum til að svo verði fái ég til þess traust framsóknarfólks þar,“ segir hann.

„Ég hef starfað lengst af á vettvangi sveitarstjórnarmála og verið svo lánsamur að hafa fengið traust þar til ýmissa verka. Ég tók sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn Fjarðabyggðar árið 2010 og var forseti bæjarstjórnar þangað til haustið 2020 er ég tók við starfi bæjarstjóra. Afskipti mín af sveitarstjórnarmálum hófust þó á kjörtímabilinu 94-98 er ég tók fyrst sæti í nefndum á vegum sveitarfélagsins, sem þá var Neskaupstaður, og hef verið virkur á þeim vettvangi síðan. Hef setið í og stýrt flestum nefndum sveitarfélagsins á þessum tíma ásamt setu í stjórnum samstarfsvettvangs sveitarfélaganna á Austurland og landsvísu. Þá hef ég einnig setið í stjórnum fyrirtækja og tekið þátt í ýmsum félagsstörfum öðrum.

Þá hef ég verið ritari Framsóknarflokksins frá árinu 2016 og í þeim störfum hef ég fengið að kynnast undirstöðum flokksins sem er grasrót hans. Ég hef stundum sagt að í henni grundvallist kjörorð samvinnunar – Máttur hinnar mörgu- sem á að vera undirstaða Framsóknarflokksins sem félagshyggjuafls.“

Jón Björn segir sveitarstjórnarmál sér mjög hugleikin „og hef ég öðlast mikla reynslu í áðurgreindum störfum. Þar þarf að hafa í öndvegi að stór mál, líkt og friðlýsingar sem dæmi, verða ekki unnin nema í sátt við sveitarfélögin og íbúa þeirra. Þá standa mér einnig nærri mál sem tengjast búsetu fólks á landsbyggðinni. Jöfnun búsetuskilyrða í sem víðustum skilningi, uppbygging klasasetra til að gera fólki kleift að stunda vinnu án staðsetningar en um leið að vera þáttakandi á vinnustað. Efling atvinnu og þess fjölbreytileika sem er að finna innan NA-kjördæmis.

Fjarskiptum þarf að koma þannig að landsbyggðin sé undir fjórðu iðnbyltinguna búinn. Að við hættum að tala um hvað horfur í landbúnaði séu góðar til framtíðar og finnum frekar leiðir til að gera hann að öflugri atvinnugrein líkt og sjávarútvegurinn er. Uppbygging fiskeldis, efling menntunar og áframhaldandi uppbygging samgangna sem eru samfélögunum okkar svo mikilvægar,“ segir Jón Björn.

Tvær konur gefa kost á sér í fyrsta sæti listans eins og komið hefur fram á Akureyri.net, Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður og Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri.

Áður hafði Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi og varaþingmaður, boðið sig fram í annað sæti á listanum og Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps, tilkynnti í gær að hann sæktist eftir 2. eða 3. sæti.