Fara í efni
Fréttir

Jóhann Hjartarson í Skákfélag Akureyrar

Jóhann Hjartarson stórmeistari er genginn til liðs við Skákfélag Akureyrar (SA) frá Víkingaklúbbnum og keppir fyrir hönd félagsins á Íslandsmóti skákfélaga í Reykjavík um næstu helgi.

Mikil ánægja ríkir innan félagsins með þessi félagaskipti, segir Áskell Örn Kárason, formaður SA, enda Jóhann einn allra sterkasti skákmaður Íslands frá upphafi; hann komst hæst í 13. heimslistans og er eini Íslendingurinn fyrir utan Friðrik Ólafsson sem hefur unnið sér sæti á áskorendamótinu í skák. Þótt Jóhann tefli ekki lengur sem atvinnumaður er hann enn í hópi sterkustu skákmanna þjóðarinnar og mun því styrkja skáksveit félagsins verulega, segir Áskell örn.

Skákfélag Akureyrar sendir að þess sinni fjórar sveitir til keppni og tefla A- og B-sveitir félagsins báðar í 1. deild. Gera má ráð fyrir að A-sveitin verði í baráttu um sigur í deildinni og sæti í úrvalsdeild að ári. 

Vetrardagskrá Skákfélags Akureyrar er nýhafin með hefðbundnu haustmóti, sem er meistaramót félagsins. Undanrásir fóru fram fyrr í mánuðinum og nú stendur yfir úrslitakeppni þar sem þrír keppendur eru efstir og jafnir þegar tveimur umferðum er ólokið, Smári Ólafsson, Áskell Örn Kárason og Markús Orri Óskarsson. Hlé hefur nú verið gert á mótinu vegna Íslandsmótsins um næstu helgi.