Fara í efni
Fréttir

Jodie Foster yfir sig hrifin af Smámunasafni Sverris!

Sigríður Rósa Sigurðardóttir og Jodie Foster í Smámunasafninu í Sólgarði. Myndina tók Alexandra Hedison, eiginkona Foster.

Bandaríska stórleikkonan Jodie Foster skoðaði Smámunasafn Sverris Hermannssonar í Eyjafjarðarsveit á mánudaginn og var yfir sig hrifin, að sögn Sigríðar Rósu Sigurðardóttur safnstýru.

„Ég er ekki með opið en hingað hringdi Breti sem hefur tvisvar komið á safnið og finnst það dásamlegt. Hann sagðist vera með farþega sem hann vildi endilega fá að sýna þetta einstaka safn; spurði hvort hann mætti renna við. Ég hef oft þurft að neita beiðni eins og þessari en ég var á staðnum svo ég sagði honum bara að koma,“ segir Sigríður Rósa við Akureyri.net.

Áttaði sig þegar hún brosti!

Jodie Foster, ein kunnasta Hollywood leikkona samtímans, fer með aðahlutverkið í fjórðu röð sjónvarpsþáttanna True Detective sem verið er að taka upp hér landi. Upptökur hafa farið fram á nokkrum stöðum undanfarna mánuði og þessa dagana er tekið upp á Dalvík – sem í þáttunum heitir Ennis og er í Alaska.

Sigríður Rósa hafði ekki hugmynd um hverjir farþegarnir væru. „Þau komu hingað inn, bílstjórinn David og þrjár konur. Ég bauð þau velkomin eins og ég geri við alla gesti, hann byrjaði á að segja þeim frá fyrri heimsóknum sínum og dásamaði safnið og ég bauðst svo til að ganga með þeim um og segja frá.“

Mjög yndælar

Safnstýrunni fannst hún eiga að kannast við aðra erlendu konuna en kveðst ekki hafa komið henni fyrir sig. „Það var ekki fyrr en eftir nokkrar mínútur að ég áttaði mig á að þetta væri Jodie Foster; þegar hún brosti!“

Með í för var eiginkona Foster, Alexandra Hedison, leikari, leikstjóri og ljósmyndari, og Högna, aðstoðarkona Jodie á Íslandi. „Þær voru óskaplega yndælar,“ segir Sigríður Rósa.

Jodie Foster hefur unnið tvenn Óskarsverðlaun, þrenn Golden Globe verðlaun og þrenn BAFTA verðlaun, bresku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin.

Einstakt safn!

„Þær áttu ekki orð yfir hvað þetta væri magnað safn og einstakt,“ segir Sigríður Rósa, „en urðu undrandi þegar ég sagði þeim að sveitarfélagið hygðist selja húsið og ekki reka safnið áfram. Þá vörpuðu þær strax fram fullt af hugmyndum um hvað hægt væri að gera – og tóku fram að þeim þætti sveitin mjög falleg!

Þær skoðuðu líka Saurbæjarkirkju hér fyrir ofan og fannst hún geysilega falleg. Þær hafa komið að Skógum og fannst margt líkt með stöðunum.“

Gestirnir þrír skoðuðu sýninguna í Sólgarði gaumgæfilega „en ég fór svo líka með þau niður í kjallara og inn á skrifstofu og sýndi þeim muni sem ekki hefur verið hægt að sýna. Þeim fannst það algjör synd og töluðu um að þessu þyrfti að gera enn betri skil!“

Óvissa ríkir um framtíð Smámunasafnsins eins og fram hefur komið í fréttum. „Það hjálpar kannski til ef safnið verður frægt í Hollywood,“ segir Sigríður Rósa og getur ekki varist brosi ...

  • Rétt er að taka fram að Jodie Foster gaf Sigríði Rósu góðfúslegt leyfi til þess að birta myndina af þeim saman og segja hve mikið henni hefði þótt koma til safnsins.