Fara í efni
Fréttir

Jens Garðar í 1. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum

Jens Garðar Helgason og Njáll Trausti Friðbertsson.

Jens Garðar Helgason er nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og skipar því 1. sæti listans við alþingiskosningarnar 30. nóvember næstkomandi.

Jens Garðar sigraði Njál Trausta Friðbertsson, oddvita flokksins í kjördæminu, alþingismann og formann fjárlaganefndar, í kosningu á kjördæmisþingi sjálfstæðismanna sem stendur yfir í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit.

Úrslit voru kunngjörð rétt í þessu.

  • Jens Garðar 100 atkvæði - 59,5%
  • Njáll Trausti hlaut 68 atkvæði - 40,5%

Njáll Trausti gefur kost á sér í 2. sæti listans. Áður höfðu þrjár konur tilkynnt að þær sæktust eftir 2. sætinu; Berglind Ósk Guðmundsdóttir alþingismaður sem var í 2. sæti við síðustu kosningar, Valgerður Gunnarsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík og fyrrverandi alþingismaður, og Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi og varaþingmaður flokksins í kjördæminu.

Jens Garðar Helgason er 47 ára. Hann er aðstoðarforstjóri sjókvíaeldisfyrirtækisins Kaldvíkur hf. á Eskifirði, fyrrverandi formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og fv. formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð.

Meira síðar