Jarðarfarir fátíðar hjá kaþólskum á Akureyri
Jarðarfarir eru almennt stór hluti af starfsviði presta en kaþólski presturinn á Akureyri hefur svo gott sem alveg sloppið við slík verkefni þrátt fyrir að hafa verið fimm ár í starfi.
„Þetta er mjög sérstakt en helgast af því hve söfnuðurinn er ungur,“ segir Jürgen Jamin sóknarprestur Péturssóknar á Norðurlandi. „Ég sé að fáninn við Akureyrarkirkju er oft dreginn í hálfa stöng, næstum því daglega.“
Aðeins einu sinni jarðsungið í kirkjunni
Staðan er hins vegar önnur í Péturskirkju, kirkju kaþólska safnaðarins á Akureyri. Jürgen hefur aðeins einu sinni jarðsungið þar á þeim árum sem hann hefur verið sóknarprestur á Norðurlandi. Það var Dóra Ólafsdóttir, sem lést í fyrra þá 110 ára gömul. Dóra var þá elst Íslendinga og hafði náð hærri aldri en nokkur annar hér á landi. Þá kom Jürgen líka nálægt útför á Húsavík en fyrir utan það hafa jarðafarir ekki verið hluti af hans starfi við Péturssókn á Norðurlandi.
Ungar fjöskyldur í söfnuðinum
Jürgen vill þó ekki meina að safnaðarmeðlimir í kaþólska söfnuðinum séu heilsuhraustari en aðrir heldur sé skýringuna að finna í því að meirihluti safnaðarins á Norðurlandi er ungt fólk. „Söfnuðurinn er ungur og samanstendur aðallega af innflytjendum, ungum fjölskyldum sem hafa sest hér að, og það hefur bara enginn verið að deyja,“ segir Jürgen hreinskilinn. Hann bætir við að vinir og vandamenn hans erlendis spyrji hann stundum hvort hann sé ekki mikið að fara á elliheimilin og heimsækja eldri safnarmeðlimi, en slíkar heimsóknir hafa fram til þessa ekki verið í hans verkahring. „Þetta gæti reyndar farið að breytast á næstu árum því núna eru nokkrir meðlimir safnaðarins komnir á fullorðins ár,“ Jürgen
Akureyri. net fjallaði nýlega um fjölgun í kaþólska söfnuðinum á Norðurlandi og fyrirhugaða stækkun á Péturskirkju á Akureyri. Þá umfjöllun má sjá hér:
Stuðlum að aðlögun útlendinga á Íslandi
Kaþólska kirkjan á Akureyri stækkuð
Jarðarfarir eru stór hluti af starfi presta en ekki hjá kaþólska prestinum á Akureyri. Mynd: Unsplash/Fey Marin