Fara í efni
Fréttir

Jákvætt að allir kynna sér alla skólana

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, til hægri, ráðherra háskóla-, iðnaðar og nýsköpunar, setti Háskóladaginn í gær og kynnti sér síðan námsframboðið gaumgæfilega. Á þessum bás HR var ráðherra tekin í örstutt viðtal. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Háskóladagurinn var haldinn í fyrsta sinn á Akureyri í gær. Allir háskólar landsins tóku þátt og heppnaðist dagurinn í alla staði vel.

Ráðherra háskóla-, iðnaðar og nýsköpunar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, setti daginn í Háskólanum á Akureyri en viðburðurinn stóð frá  12-15 í húsnæði Háskólans á Akureyri við Norðurslóð.

Kynna sér allt!

Kristín Ása Einarsdóttir, viðburðastjóri Háskóla íslands sagði í samtali við Akureyri.net að dagurinn hefði gengið vel en þau hefðu alveg verið til í að sjá aðeins fleira fólk, en mögulega spilaði veðrið inn í. Kristín Ása bætir við: „Gaman samt að fá að vera hér í Háskólanum á Akureyri og kynna fyrir Akureyringum allt það nám sem er í boði í háskólunum sjö á landinu.“ Hún sagði enn fremur að henni sýndist allir kynna sér alla skólana mjög vel sem væri mjög jákvætt. „Því hingað erum við komin til að svara spurningum gesta.“

Mikill áhugi

Amanda Guðrún Bjarnadóttir og Thelma Hrund Hermannsdóttir eru nemar í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Þær létu vel af deginum og sögðu að gestir hefðu mikinn áhuga á að kynna sér fagið þeirra. Líkt og Kristín Ása frá Háskóla Íslands, sögðu þær að aðsóknin hefði mátt vera meiri en héldu að veðrið gæti spilað eitthvað inn í þar. En það væri mjög gott að vera þarna að kynna og sjá líka hvað hinir háskólarnir væru að bjóða. Spurðar um hvort áhugi sé á fjölmiðlafræði umfram aðrar greinar svöruðu þær: „það virðist sem það sé einhver ruglingur; menn vita ekki alveg hvað felst í því“. Þeim finnst flestir opnir fyrir öllu en ekki margir með ákveðinn fókus – bara kynna sér allt!

Nökkvi Alexander Rounak Jónsson, fráfarandi formaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri (SHA). gerði lítið úr sínum hlut í undirbúningi fyrir daginn og sagði að Markaðs- og kynningarnefnd ættu allan heiðurinn. Amanda, Thelma og Nökkvi voru sammála um að þetta væri stór dagur fyrir Háskólann á Akureyri. Hér væri hann haldinn í fyrsta sinn og þetta væri því merkisdagur.

Frábært samstarf

Katrín Árnadóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarmála í Háskólanum á Akureyri, tjáði Akureyri.net í stuttu viðtali, að undirbúningur fyrir Stóra háskóladaginn hefði í byrjað hjá henni árið 2016. „Það var mín helsta ósk að fá Háskóladaginn inn í Háskólann á Akureyri. Háskóladagurinn hefur alltaf verið haldinn í Reykjavík og í framhaldsskólum um land allt, en ég vildi endilega fá tækifæri til að bjóða fólki inn í Háskólann á Akureyri.“ Hún bætir við: „ Ég fékk þá ósk mögulega uppfyllta 2020, þá var allt komið upp, allt tilbúið hér í Háskólanum á Akureyri en þá var öllu afsagt með tveggja klukkustunda fyrirvara – út af heimsfaraldri.“

Katrín segist vera afar glöð með að fá alla háskóla landsins inn í HA og allt samstarf hafi verið frábært. Þetta væri gott tækifæri fyrir fólkið á Akureyri og nærsveitum að kíkja og sjá hvað virkilega er í boði hjá öllum háskólum landsins.

En hvað stendur upp úr á Háskóladeginum að mati forstöðumanns markaðs- og kynningarmála í HA?

„Það er rosalega gaman að nýr ráðherra háskólamála hafi komið og opnað daginn fyrir okkur, það er æðislegt að hún sýni okkur virðingu með því; og leggi þar af leiðandi auðvitað áherslu á háskólanám á landinu með því að mæta; svo er líka virkilega gaman að sjá hve margir Akureyringar kíkja við, ekki allir í leit að námi heldur líka til að skoða aðstöðuna og hvað hinir háskólarnir eru að bjóða upp á. Þannig að það er búinn að vera reytingur í allan dag og virkilega gaman að taka á móti fólkinu,“ segir Katrín að lokum.

Ráðherra og rektorar háskólanna sjö. Frá vinstri: Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda í Háskóla Íslands, Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands, Ragnhildur Helgadóttir rektor Háskólans í Reykjavík, Eyjólfur Guðmundsson rektor Háskólans á Akureyri, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor Háskólans á Bifröst og Ragnheiður Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri.

Amanda Guðrún Bjarnadóttir og Thelma Hrund Hermannsdóttir eru nemar í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. 

Kristín Ása Einarsdóttir, viðburðastjóri Háskóla íslands.

Katrín Árnadóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningarmála í Háskólanum á Akureyri, til vinstri, og Steinunn Alda Gunnarsdóttir, verkefnastjóri samfélagsmiðla HA.