Íslandsklukkunni var hringt 20 sinnum
Fullveldi Íslands var venju samkvæmt fagnað með hringingu Íslandsklukkunnar við Háskólann á Akureyri í dag. Það var fulltrúi stúdenta, Agnes Ögmundsdóttir, sem sló 20 högg – eitt fyrir hvert ár frá árþúsundamótum. Viðburðinum var streymt beint á Facebooksíðu Háskólans á Akureyri klukkan ellefu.
Venjulega er margmenni viðstatt þegar Íslandsklukkunni er hringt og samkoma í kjölfarið í húsakynnum HA, en nú voru aðeins þrír á staðnum auk blaðamanns Akureyri.net, Katrín Árnadóttir, forstöðumaður Markaðs- og kynningarsviðs skólans og tveir vinir Agnesar, Steinunn Alda Gunnarsdóttir, formaður Stúdentafélags skólans, og Sigurður Már Steinþórsson. Auðunn Níelsson ljósmyndari var í fjarska en dróni hans sveimaði yfir og var viðburðinum streymt sem fyrr segir.
Katrín Árnadóttir, forstöðumaður Markaðs- og kynningarsviðs HA sýnir Agnesi hringjara réttu handtökin og Agnes staðfestir að hún sé tilbúin í slaginn!
Agnes hringir klukkunni, og veifar svo til viðstaddra - sem voru einungis þrír - að loknu verki, stolt af frammistöðunni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.
- Íslandsklukka, verk Kristins E. Hrafnssonar, myndlistarmanns, var gerð til minningar um 1000 ára kristnitökuafmæli, landafundi í Vesturheimi og sögu þjóðarinnar í stóru og smáu. Akureyrarbær efndi til samkeppni um útilistaverk árið 1999, samkeppnin var öllum opin og bárust 62 tillögur. Í umsögn dómnefndar um Íslandsklukku Kristins sagði: „Stór klukka er látin tákna söguna með margvíslegum skírskotunum. Grunnform verksins, efni og stærðarhlutföll, eru fengin úr Hóladómkirkju og trjátegundin hlynur frá N-Ameríku. Íslandsklukkan er verk mjög í samræmi við tilefni samkeppninnar. Söguleg ártöl á klukkunni og hugmyndin að slá inn tímann á tyllidögum gefur því sögulegt og skemmtilegt yfirbragð. Hugmynd að staðsetningu fellur vel að umhverfinu. Verkið er stílhreint og fallegt.“
- Akureyrarbær afhenti Háskólanum á Akureryi útilistaverkið til afnota árið 2001. „Árið 2000, þegar verkið var sett upp, var Háskólinn á Akureyri einungis 12 ára og átti því stutta sögu að baki og fáar hefðir. Kristinn skapaði með verkinu möguleika á að skapa hefðir, að ná saman sögunni og samtímanum, jafnframt hugsuninni um að við eigum alltaf hlutdeild í sögunni með því að skapa atburði. Kristinn er einn af virtustu og afkastamestu skúlptúristum landsins og verk eftir hann má sjá á fjölda staða jafnt innan dyra sem úti,“ segir á vef Akureyrarbæjar.