Innsýn í það friðarríki sem Kristur boðar
Miðnæturmessa var í Glerárkirkju klukkan 23.00 að kvöldi aðfangadags. Þar flutti séra Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur eftirfarandi predikun. Rannvá Olsen, Sigurður Ingimarsson og Heimir Ingimarsson leiddu jólasöng.
_ _ _
Guð ljóssins og lífsins – ég bið þess að friður þinn og birta liti ekki aðeins þessa nótt, heldur umvefji okkur alla daga, sé okkur leiðarljós í hversdeginum – að barnið í Betlehem sé okkur áminning um að þú mætir okkur þar sem við búumst síst við því – í hvoru öðru, og í okkur sjálfum. Amen.
Það er komið að því - á aðventunni höfum við leyft okkur að undirbúa jólin – og undirbúa okkur undir jólin. Smákökubaksturinn var mögulega á sínum stað, laufabrauðið tilbúið, hátíðarmaturinn skipulagður og pakkanir komnir undir tréð: þessi árstíð innri undirbúnings verður hjá okkur mörgum kapphlaup við það að ná í skottið á okkur, og svo eru þau bara allt í einu komin. Klukkurnar hringja og það eru jól.
Og akkúrat þá – þegar við erum ekki lengur að bíða eftir jólum, á því augnabliki held ég að flestir Íslendingar upplifi svolítið magnaða núvitundaræfingu – því við erum. Erum ekki að undirbúa eða skipuleggja, erum ekki að hugsa til baka og velta fyrir okkur – við erum að iðka jólin á okkar hátt, þar og þá, hér og nú – við finnum að það eru jól.
Sú tilfinning er ekki bundin íburði, skrauti, veislumat eða pökkum, heldur einfaldlega því að fólk tekur á móti þessari hátíð ljóss og friðar, ljær henni merkingu og hvílir í stundinni.
Jólin eru ekki tími til að rugga bátnum eða vera með of langa prédikun, ég þurfti að hemja mig töluvert, því hér í næturmessunni er áherslan á að syngja saman – hvíla í helgi jólanna og leyfa okkur að eiga stund litaða af jólafriði og kærleika.
Ef það er einhver tími, einhver stund sem gefur okkur innsýn í það friðarríki sem Kristur boðar, þá eru það jólin. Því jafnvel þar sem ófriður og myrkur ríkir, þar fylgir jólunum birta.
Í byrjun árs 2016 starfaði ég sem prestur í flóttamannamóttöku í Noregi og talaði þar við kristna Sýrlendinga sem höfðu flúið land og varið jólunum á gistiheimili nyrst í Rússlandi, í ótta og óvissu. En mitt inn í aðstæður þeirra komu jólin, og þau héldu upp á þau með ókunnugu fólki, af ólíkum trúarhefðum og þjóðernum, komu saman í kærleika og friði sem þeim fannst óraunverulegt að upplifa þegar allt annað í lífinu var nokkurn vegin á hliðinni.
Í augnablik var það friður, hlýja, von og samstaða sem litaði lífið.
Ég hlustaði á þau og hugsaði til sagna úr skotgröfum í fyrri heimsstyrjöldinni þar sem stríðandi fylkingar komu saman á jóladag, sungu, spiluðu fótbolta, skiptust á gjöfum, borðuðu saman.
Til eru ótal sögur um það hvernig jólin hafa fært frið og von í ólíklegustu aðstæður, hvernig fólk hefur náð að koma saman, umvefja hvort annað, sýna samstöðu og samhug. Mæst í augnhæð og sleppt tökunum á þeim veggjum og landamærum sem samfélagið okkar málar allt of oft á milli okkar. Sleppt tökunum á óttanum við það sem er öðruvísi og séð að við erum öll systkin. Öll börn Guðs.
Þessi kærleikur jólanna hefur opinberast okkur undanfarnar vikur í hlýjunni og velviljanum sem birtist þar sem fólk leggur töluvert á sig til að hjálpa náunganum fyrir jólin, aðstoða fólk við að kaupa í matinn og kaupa gjafir. Styrkja hjálparstarf fyrir fólk á flótta, fólk sem býr við stríðsátök, fyrir börn sem lifa við fátækt.
Andi jólanna birtist okkur þar sem fólk leggur það á sig að vera til staðar fyrir náungann, og við vitum það, sama hverju við trúum, að í kærleikanum og friðinum finnum við kjarna þessarar hátíðar.
Eftir því sem ég las guðspjallatextann oftar á þessari aðventu þá var það örlítið smáatriði, í raun algjört smáræði í þessari frásögn, sem ég fann að talaði sterkt til mín.
Það er sú athöfn Maríu að vefja litla drenginn reifum og leggja hann til hvíldar í þeirri vöggu sem þeim stóð til boða, jötunni. Líklega kallaði þetta á mig þar sem mitt yngsta barn er þriggja mánaða í dag og undanfarnar vikur hef ég margoft vafið hann reifum, vafið hann í teppi til að sefa, gefa öryggi og hlýju, og svo lagt hann í vögguna.
María vefur Jesúbarnið reifum eins og óteljandi foreldrar hafa gert við óteljandi börn. Umvafið litlu krílin sem eiga ekkert nema traustið sitt. Traust til þess að við sem elskum þau, verndum þau og gætum þeirra.
Í þessu smáatriði og hversdagslega augnabliki dregur sagan fram nokkuð sem mér finnst bæði ólýsanlega stórt og yfirþyrmandi fallegt.
Það er að jólaguðspjallið, þessi saga sem við þekkjum svo vel, er saga um óvænta trú – ekki trú okkar á Guði – heldur er þetta saga um þá trú sem Guð hefur á okkur.
Trú Guðs á okkur er slík, að Guð fæðist inn í heiminn sem ómálga, ósjálfbjarga kornabarn í fullkomnu trausti til þess að við munum hlúa að sér, næra, elska, ala upp, rugga í svefn eða svæfa með vögguvísum og kvöldsögum.
Svo mikil er trú Guðs á okkur – að Guð skapari heimsins treystir okkur fyrir sér í fullkomnu varnarleysi nýfædds krílis.
Mig langar að bjóða ykkur að staldra við þetta með mér og íhuga.
Að sami máttur og skóp veröldina.
Sami lífsandi og umvefur heiminn
Sami Guð og gefur frelsi, styrk og frið:
Mætir okkur með þeim mætti sem lítil kríli á öllum tímum hafa til að afvopna hjörtun okkar, mætti trausts, einlægni, friðar og kærleika.
Ég held að sú trú sem Guð hefur á okkur, og það traust sem Guð ber til okkar hljóti að þýða, að það sé á okkar færi að lifa þannig að við sem samfélag stöndum undir þessu trausti.
Að við getum skapað samfélag þar sem við vefum lífið og hvort annað reifum, gætum að samferðafólkinu, hjálpumst að, hlúum að sköpunarverkinu: lifum í kærleika, friði og réttlæti.
Guð leiðir okkur á þeirri göngu. Og jólin, með öllum sínum náungakærleik, hjálparstarfi, velvilja og friði sýna okkur að þetta sé mögulegt, ekki bara yfir hátíðirnar heldur alla daga.
Ég vil leyfa því að vera lokaorðunum þessa jólanótt, að Guð hefur trú á okkur.
Amen.