Fara í efni
Fréttir

Innangengt úr safninu í Boeing „viðbyggingu“

Steinunn María Sveinsdóttir, safnstjóri Flugsafns Íslands. Fremsti hluti skrokks Boeing þotunnar mun standa út úr norðurgaflinum, um það bil þar sem merki safnsins er. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Framhluti Boeing 757-208 þotunnar Surtseyjar, sem Icelandair hefur tilkynnt að verði afhentur Flugsafni Íslands á Akureyri, á eftir að setja mikinn svip á safnið þegar fram líða stundir. Þessi hluti skrokksins – flugstjórnarklefinn og Saga Class hluti farþegarýmisins – mun nefnilega skaga út úr norðurgafli safnsins og innangengt verður í þotuna úr safninu.

Vélin hefur nýst Icelandair einkar vel. Í loks mars á síðasta ári hafði hún farið í alls 30.508 flug í samtals 114.564 flugtíma. Það samsvarar því að meðalflugið hafi verið 3:45 klst. og að meðalnýtingin í tæp 29 ár hafi verið 3.970 flugstundir á ári, samsvarandi 10:53 flugstundir á hverjum degi! Þetta upplýsti Leifur Magnússon, flugmálafrömuður, á Facebook síðu sinni nýverið. Nánar um skrif Leifs neðst í fréttinni

Steinunn María Sveinsdóttir, safnstjóri Flugsafns Íslands, segir við Akureyri.net að vélin verði geymd í Keflavík um sinn en flutt norður þegar hentar. „Nú verður farið í að afla tilskilinna leyfa og framkvæmdir verða töluverðar. Þar sem innangengt verður í vélina úr safninu mun hún teljast viðbygging og því þarf að fá byggingarleyfi áður en hafist verður handa. Svo sjá verkfræðingar og arkitektar um að útfæra verkefnið.“

Skrokkur Surtseyjar er engin smásmíði; 3,8 metrar í þvermál og 4,4 metrar á hæð þannig að gripurinn verður áberandi. Og byggja þarf einhvers konar svalir við innanverðan norðurgaflinn til að geta gengið inn í vélina.

Steinunn er spennt fyrir því að fá þotuna norður. „Hún verður frábær viðbót við safnið en þetta er langtímaverkefni og kostnaðarsamt, og við viljum vanda vel til verka. Því er ekki hægt að segja til um það núna hvenær hún verður komin upp og hægt verður að hleypa fólki inn í vélina, en við vinnum verkefnið í góðu og nánu samstarfi við Icelandair.“

_ _ _ _

Flugvirkjar Icelandair í Keflavík hafa síðustu mánuði unnið við að rífa niður þotuna Surtsey, sem áður hét Svandís. Þetta er söguleg vél; Icelandair fékk þotuna, Boeing 757-208 TF-FIJ, afhenta í Seattle 26. maí 1991, að því er Leifur Magnússon, flugmálafrömuður, ritaði á Facebook síðu sína á dögunum.

Leifur skrifar:

Þessi þriðja 757 þota félagsins var reyndar fyrstu tvö árin leigð til breska flugfélagsins Britannia, þar skráð G-BTEJ og bar nafnið David Livingstone.

Hún kom síðan inn í rekstur Icelandair 9. maí 1993 og fékk þá nafnið Svandís.

Síðar, og í breyttu útliti, bar hún nafnið Surtsey. Í lok mars 2020 hafði hún flogið samtals 30.508 flug í samtals 114.564 flugtíma. Það samsvarar því að meðalflugið hafi verið 3:45 klst. og að meðalnýtingin í tæp 29 ár hafi verið 3.970 flugstundir á ári, samsvarandi 10:53 flugstundir á hverjum degi.

Þessi fjárfesting hefur því heppnast frábærlega vel. Meðfylgjandi myndir sýna TF-FIJ í þeim þremur búningum sem hún klæddist á löngum og farsælum ferli. Tvær aðrar Boeing 757-208 þotur voru afhentar Icelandair vorið 1990. Sú fyrri, TF-FIH, var árið 1996 seld erlendu félagi sem leigði hana áfram til Icelandair. Í nóvember 2006 var henni breytt í fraktþotu (PCF) og er sem slík enn í fullum rekstri hjá Icelandair. Sú seinni, TF-FII, var fyrir nokkrum árum leigð til Capo Verde flugfélagsins og síðar seld því. Á eftir þessum fyrstu þremur Boeing 757 þotum Icelandair komu fimm aðrar 757 þotur, sem félagið keypti nýjar beint frá Boeing. Auk þeirra hafa verið keyptar eða leigðar samtals 34 Boeing 757 þotur sem þjónað hafa í flugrekstri félagsins til lengri eða skemmri tíma.

  • Að neðan: Myndir af Surtsey í flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli, þar sem fjöldi starfsmanna tæknideildar félagsins hafa unnið við niðurrif hennar síðustu mánuði. Fremsti hlutinn, sem þarna sést vel, kemur til Akureyrar en restin af skrokknum í endurvinnslu. Ýmislegt verður nýtt áfram, m.a. í varahluti.