Ingvar Gíslason fv. ráðherra er látinn
Ingvar Gíslason fyrrverandi alþingismaður og ráðherra lést síðastliðinn miðvikudag, 96 ára að aldri. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Ingvar fæddist í Nesi í Norðfirði 28. mars 1926. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Hjálmarsson Kristjánsson útgerðarmaður og Fanný Kristín Ingvarsdóttir húsmóðir.
Ingvar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1947. Hann stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1947-1948 og í sagnfræði við háskólann í Leeds á Englandi 1948-1949. Hann lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands árið 1956, gegndi ýmsum störfum eftir námið og var m.a. skrifstofustjóri Framsóknarflokksins á Akureyri 1957-1963 og stundaði jafnframt ýmis lögfræðistörf.
Hann var kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn árið 1961 og var alþingismaður Norðurlands eystra frá 1961 til 1987. Árið 1980 var Ingvar skipaður menntamálaráðherra og gegndi því embætti til 1983. Hann var forseti neðri deildar Alþingis á árunum 1978-1979 og 1983-1987. Hann var formaður þingflokks Framsóknarflokksins 1979-1980.
Eiginkona Ingvars var Ólöf Auður Erlingsdóttir, f. 1928, d. 2005. Börn þeirra eru: Fanný, Erlingur Páll, Gísli, Sigríður og Auður Inga.