Indónesar kynna sér fiskveiðistjórnun
Um þessar mundir er 15 manna hópur frá Indónesíu staddur á Akureyri til að læra um fiskveiðistjórnun á Íslandi. Námskeiðið er styrkt af Alþjóðabankanum og skipulagt af HA, sjávarútvegsskóla GRÓ og Fiskistofu.
Í samtali við Akureyri.net sagði Hreiðar Þór Valtýsson, dósent við HA, að hópurinn verði hér á landi í 10 daga og þar af 7 á Akureyri. „Fólkið er frá stofnunum og ráðuneytum í Indónesíu sem tengjast sjávarútvegi. Þau eru sem sagt að velta því fyrir sér hvort þau geti lært eitthvað af okkur og yfirfært á Indónesíu.“
Fjölmargir sérfræðingar í sjávarútvegsmálum taka þátt í kennslunni. Hópurinn mun kynnast öllu ferlinu frá fiskveiðum til neytenda og heimsækja sjávarútvegsfyrirtæki hér.
Önnur stærsta fiskveiðiþjóð í heimi
Indónesía er önnur stærsta fiskveiðiþjóð í heimi á eftir Kína og veiðir um sex sinnum meira en Ísland. Indónesía er líka fjórða fjölmennasta þjóð í heimi. Fiskveiðar fara þar ört vaxandi enda mjög mikilvæg fæða þar, því skiptir þá miklu máli að gera hlutina vel.
Íslendingar standa mjög framarlega í rannsóknum og tækni í sjávarútvegsmálum og það verður sífellt algengara að fulltrúar frá öllum heimshornum sæki hingað til að afla sér þekkingar. Háskólinn á Akureyri hefur mjög öfluga sjávarútvegsdeild og er því vel í stakk búinn til að taka á móti hópum sem þessum og kynna íslenska sjávarútveginn í samstarfi við aðila eins og GRÓ og Fiskistofu.