Iðunn mathöll opnuð í dag eftir langa bið
„Efst í huga mínum núna, eru klárlega léttir og þakklæti,“ segir Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Iðunnar mathallar, þegar hann sest niður með blaðamanni fyrr í dag. Tæpir tveir tímar eru liðnir frá fyrstu opnun, sem aðstandendur hallarinnar hafa beðið lengi eftir og unnið hörðum höndum að.
„Þetta er búið að vera aðeins of langt ferli,“ segir Guðmundur. „Það hefur tekið svolítið á að þurfa að fresta þessu svona, en loksins er þetta komið. Síðustu tveir mánuðir hafa verið góðir, þá höfum við séð nánast daglegar framfarir og svo voru síðustu tvær vikur fyrir opnun svakaleg keyrsla. Lítill svefn og mikið vaðið úr einu í annað. En þetta er búið að vera frábært sameiginlegt átak rekstraraðila, verktaka og eigenda hússins.“
Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri og annar rekstraraðila Iðunnar mathallar, eftir opnunina í dag. Mynd RH
Bylgjulaga form í loftinu setja mikinn svip á heildarútlitið, ef til vill eru þau vísun í norðurljósin. Mynd: RH
Guðmundur segir að það sem hafi komið honum mest á óvart að það hafi verið vesen oft á tíðum að fá aðföng til Akureyrar. „En það skiptir ekki máli núna, því þetta er komið.“ Hann er nánast áþreifanlegur, léttirinn sem fylgir Guðmundi í þessu viðtali, en þau sem koma að opnun Iðunnar mathallar mega vera stolt af árangrinum. Fjöldi fólks streymir inn og um allt situr fólk og smakkar nýjungar í veitingaflóru Akureyrar. Enginn af þeim stöðum sem hafa opnað í Iðunni hefur verið á Akureyri áður.
Opið fram á kvöld
„Það er fullt hús núna, og ég er búinn að vera að rölta um og fylgjast með,“ segir Guðmundur. „Fólk vaknaði snemma í morgun og allir voru tilbúnir í daginn í dag.“ Opnunartími mathallarinnar verður sá sami og á Glerártorgi á meðan enn er jólaopnun, en svo sér Guðmundur fyrir sér að hafa opið fram á kvöld eftir það. „Fyrstu hugmyndirnar eru að hafa opið sunnudag til fimmtudaga frá 11.30 - 21.00 og svo föstudag og laugardag frá 11.30 - 22.00. En það á eftir negla þetta.“
Mathöllin er hönnuð af HAF Studio og Guðmundur tekur sérstaklega fram að mikil ánægja sé með útlit og upplifun. „Þau stóðu sig virkilega vel og góð samvinna var við rekstraraðila í básunum. Ef þau vildu breyta einhverju þá var gott samtal þar og þetta gekk upp. Við erum mjög ánægð með útlitið.“ Einnig minnist Guðmundur á Strik Studio, sem hannaði merki mathallarinnar, en þar var einnig mjög góð samvinna og mikil ánægja með niðurstöðuna.
Veitingastaðirnir sem eru í Iðunni mathöll:
La Cuisine er franskt bistro – Fuego Taqueria, býður upp á mexíkanskan mat – Retro Chicken býður upp á kjúkling og hamborgara á sínum matseðli – Pizza Popolare býður upp á pitsur – Þá er einnig sushistaðurinn OSHI og kaffihús og bar sem ber heitið Strýtan. Þar er hægt að fá kaffi, kökur og smörrebröd á daginn og drykki á kvöldin.
Sushistaðurinn OSHI.