Fara í efni
Fréttir

Aldrei fleiri greitt atkvæði utan kjörfundar

Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Utankjörfundaratkvæðagreiðslu hjá embættum sýslumannsins á Norðurlandi eystra og sýslumannsins á Austurlandi lauk kl. 17 í dag. Samtals voru greidd 6.116 atkvæði utan kjörfundar hjá embættunum. Þetta kemur fram í tilkynningu Svavars Pálssonar, sýslumanns á Norðurlandi eystra, nú síðdegis. Staðfest er að ekki þarf að fresta kjörfundi þannig að kjörfundi lýkur eigi síðar en kl. 22 í kvöld.

„Aldrei hafa verið greidd fleiri utankjörfundaratkvæði hjá sýslumannsembættunum á Norðurlandi eystra og Austurlandi, þ.e. í Norðausturkjördæmi. Gildir þá einu við hvaða kosningar er miðað,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Fjöldi atkvæða sem greidd voru utan kjörfundar skiptust með eftirfarandi hætti niður á daginn í dag og í gær, annars vegar á Norðurlandi og hins vegar Austurlandi:

Norðurland:

Atkvæði í dag: 105
Atkvæði í gær: 835
Atkvæði í vikunni: 3.176
Samtals: 4.339

Austurland:
Atkvæði í dag: 2
Atkvæði í gær: 673
Atkvæði í vikunni: 1.500
Samtals: 1.777

Fjölgun þeirra sem greiddu atkvæði utan kjörfundar á Austurlandi er mjög veruleg og kæmi ekki á óvart ef þau mynduðu hærra hlutfall greiddra atkvæða en dæmi eru um á landvísu. Á kjörskrá í kjördæminu eru um 31.039 kjósendur. Verði kjörsókn 80% má því ætla að atkvæði greidd utankjörfundar kunni að nema allt 30% greiddra atkvæða.

„Sérstaka athygli vekur „verðursveifla“ í kjörsókn frá fimmtudegi til föstudags á Austurlandi þar sem helmingi fleiri atkvæði voru greidd á föstudegi en á fimmtudegi. Það telst óvenjulegt í samanburði við venjubunda kosningahegðun en staðfestir afgerandi viðbrögð kjósenda á Austurlandi og Norðurlandi eystra vegna veðurútlits,“ segir einnig í tilkynningunni.

Starfsfólk sýslumannsembættanna og sérstakir kjörstjórar sýslumanns hafa annast atkvæðagreiðsluna á samtals 18 kjörstöðum í kjördæminu, en þeim var fjölgað vegna verðurspár auk þess sem sums staðar var opið lengur en áformað var. Þá hefur atkvæðagreiðsla farið fram á fjölmörgum heilbrigðisstofnunum og dvalarheimilum í kjördæminu.


Þessir hafa eflaust kosið nokkrum sinnum áður. Mynd: Þorgeir Baldursson.


Engar samgöngutruflanir á Akureyri þótt víða um kjördæmið hafi kjósendur þurft að hafa nokkuð fyrir því að komast á kjörstað. Mynd: Snæfríður Ingadóttir.


Kjósendur koma og fara. Á morgun kemur í ljós hvaða frambjóðendur koma og hverjir fara. Mynd: Snæfríður Ingadóttir.


Skyldi það vera einmanalegt að vinna við framkvæmd kosninga? Mynd: Snæfríður Ingadóttir.


Sumir kjósendur lögðu jafnvel á frekar óhefðbundinn hátt. Spurning hvort atvkæðið var í sama dúr. Mynd: Haraldur Ingólfsson.


Töluverð bílaumferð var við Verkmenntaskólann um tvöleytið í dag. Mynd: Haraldur Ingólfsson.