Fara í efni
Fréttir

Hundar í hitasjokki á Akureyri

Mynd: Unsplash/Jesse Schoff

Í góða veðrinu sem ríkt hefur á Akureyri undanfarna daga hafa nokkrir hundar komið í hitasjokki á Dýraspítalann í Lögmannshlíð á Akureyri. 

Dv.is greinir frá þessu en þar segir að hundum geti stafað mikil hætta af ofhitnun og mikilvægt sé að hundaeigendur séu á varðbergi þegar heitt er í veðri. Þá sé mikilvægt að hundaeigendur þekki einkennin þegar hundur hitnar mikið. Í grein DV er vitnað í Facebookfærslu frá Dýraspítalanum Lögmannshlíð; „Hundar kæla sig eingöngu niður með tungunni/öndun. Þeir eru viðkvæmir fyrir hreyfingu í hita og stórhættulegt að skilja þá (og aðra ferfætlinga) eftir í lokuðum bíl í hlýju veðri. Rifa á glugga hefur ekkert að segja og stilla miðstöð á kælingu bregst. Hitinn í bílnum stígur hratt og dýrið er algjörlega bjargarlaust.“ 

Einn hundur nær dauða en lífi

„Hundar sem ofhitna og standa á öndinni eftir hreyfingu eða leik í hita verður að kæla niður með vatni sem fyrst,“ segir í færslu Dýraspítalans við Lögmannshlíð. „Ef um krampa er að ræða verður hundurinn að komast strax til dýralæknis samhliða kælingu (vefja hann t.d. með blautu handklæði). Það hafa komið til okkar nokkrir hundar í hitasjokki nú undanfarna daga og einn nær dauða en lífi.“