Fara í efni
Fréttir

Hvítt í fjöllum í morgun – hlýnar vel um helgina

Grátt í fjöllum fremra. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Það var ekki beint vorlegt að líta til fjalla þegar Akureyringar vöknuðu í morgun, hvítt niður fyrir miðjar hlíðar og hrollkalt, að minnsta kosti fyrir gönguhrólfa og útivistarfólk. Hálka er á Öxnadalsheiði og hitastig aðeins fyrir neðan frostmark. 

Nagladekkin eiga að vera komin undan ökutækjum samkvæmt lögum og má gera ráð fyrir að velflestir ökumenn hafi nú þegar skipt á sumardekk og því nauðsynlegt að kynna sér stöðuna áður en farið er af stað og aka eftir aðstæðum.

Veðurstofan spáði í gærkvöld austan og suðaustan 8-15 metrum á sekúndu, rigningu eða slyddu og hita á bilinu 0-5 stig. Í dag ætti þó að lægja og stytta upp og hiti að verða á bilinu 5-12 stig. Eitthvað hlýrra verður næstu daga, en þó varla að hitinn nái tveggja stafa tölum samkvæmt kortum Veðurstofunnar fyrr en á föstudag og laugardag, en þá gæti hitinn farið að nálgast 20 gráðurnar.

Í morgun upp úr klukkan sjö var hálka og tveggja stiga frost á Öxnadalsheiði samkvæmt upplýsingum sem finna má á kortum Vegagerðarinnar. Vefmyndavélar í Bakkaselsbrekku segja sömu sögu, hvítt í Bakkaselsbrekkunni og hálka á heiðinni. Smellið á myndirnar hér að neðan til að fara beint inn á viðkomandi vefmyndavél.