Fréttir
„Hvít jörð“ um mitt sumar á Akureyri
22.07.2022 kl. 06:00
Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir
Gangstéttir og grasbalar í grennd við Sundlaug Akureyrar og víðar í bænum hafa verið hvítar að lit undanfarna daga. Ekki er það þó snjór sem veldur því á þessum árstíma heldur asparfræ sem sérlega mikið er um.
Við Þórunnarstræti eru stórar og miklar aspir og þessa dagana hrynja hvítir hnoðrar úr þeim, svífa um nágrennið og hafa víða safnast í byngi á jörðu niðri. Eins og fram kom nýlega í fréttum RÚV þurfa vegfarendur sem þjást af frjókornaofnæmi þó ekki að hafa áhyggjur af þessum hnoðrum því asparfrjókornin valda ekki ofnæmi á þessum árstíma, heldur aðeins í maí. Síðustu asparfrjókornin mældust í kringum 15. maí, bæði í Reykjavík og á Akureyri svo þessar hvítu skæðadrífur eru alveg skaðlausar.