Fara í efni
Fréttir

Hvernig verður staðið að bólusetningunni?

Unnið er að skipulagi bólusetningar á Akureyri vegna kórónuveirufaraldursins og ætti hún að geta hafist fljótlega upp úr áramótum.

Að sögn Guðnýjar Friðriksdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, er ekki endanlega búið að ákveða hvar verður bólusett en rætt hefur verið um að gera það í einhverjum skólanna og er m.a. horft til Verkmenntaskólans í þeim efnum. Ákjósanlegt þykir að bólusetja sem flesta á skömmum tíma skv. því sem Akureyri.net kemst næst og jafnvel talað um að taka heila helgi í það til að byrja með.

Guðný segist ekki hafa fengið nákvæmar upplýsingar um hvenær megi eiga von á bóluefni norður, en hún gerir ráð fyrir að það verði fljótlega upp úr áramótum, strax og það kemur til landsins.

Eins og annars staðar verða í forgangi heilbrigðisstarfsmenn, íbúar hjúkrunar- og dvalarheimila og þeir sem liggja á öldrunardeildum sjúkrahúsa, sjúkraflutningamenn og bráðatæknar, fólk 60 ára og eldra, fólk með undirliggjandi sjúkdóma, starfsmenn skóla, fólk í félags- og velferðarþjónustu og fólk í viðkvæmri stöðu.

„Vinna við forgangslistana er í fullum gangi,“ segir Guðný.

Ekki verður hægt að panta bólusetningu heldur verður fólk látið vita hvenær því stendur til boða að mæta. „Það verður send út almenn tilkynning og auglýsingar. Sóttvarnaryfirvöld eru að vinna að innköllunarkerfi fyrir forgangshópa,“ segir Guðný. „Íbúar á hjúkrunar og dvalarheimilum verða bólusettir á heimilunum. Þetta verður auglýst á vef HSN þegar nær dregur.“

Guðný hvetur fólk til þess að fara varlega áfram. „Það þarf að halda áfram að viðhafa persónulegar sóttvarnir og fylgja tilmælum sóttvarnarlæknis. Þó það glitti í enda ganganna þá er þetta ekki búið. Höldum þetta út saman,“ segir hún.