Fara í efni
Fréttir

Hvar er ódýrasta bollan á Akureyri?

Sykurverk býður upp á ýmsar sælkerabollur. Nýjung í ár er sítrónubaka (lemon meringue pie) Mynd: Facebooksíða Sykurverks

Bolludagurinn er á mánudaginn en margir ætla að taka forskot á bolludagsgleðina um helgina. Akureyri.net kannaði hvaða bakarí á Akureyri væri með besta bolluverðið.

Klassísk vatnsdeigsbolla með glassúr, sultu og rjóma er ódýrust í Axelsbakarí en þar kostar hún 500 krónur. Dýrust er hún í Bakaríinu við Brúna en þar kostar hún 630 krónur. Hjá Brauðgerð Kr. Jónssonar er verðið 595 krónur og í Brauðgerðarhúsi Akureyrar 585 krónur.

Rétt er að taka fram að samanburðurinn er eingöngu á verði. Ekki er tekið tillit til annarra þátta eins og gæða, stærðar bollanna eð hvort þær séu bakaðar samdægurs.

Öll framantalin bakarí segjast nota íslenskan rjóma á bollurnar sínar* en Brauðgerð Kr. Jónssonar bætir jurtablöndu saman við rjómann svo hann haldist stífari. Það gerir líka Sykurverk, sem titlar sig reyndar ekki sem bakarí en bakar þó eigin bollur en hefðbundin vatnsdeigsbolla hjá þeim kosta 645 krónur.

Bakaríið við Brúna bakar sínar bollur samdægurs og notar hvorki tilbúið bollumix, þeytikrem eða þeytiblöndu í rjómann hjá sér. Mynd: Facebooksíða Bakaríð við Brúna

Fjölbreyttar sælkerabollur

Bolluúrvalið á Akureyri er afar fjölbreytt í ár og ýmis tilbrigði í boði við hina hefðbundnu bolludagsbollu. Þannig býður Sykurverk t.d. upp á glænýja bollu með sítrónumarengs. Í fyrra voru bollur með þristamús, tiramisu og dumblekaramellu mjög vinsælar hjá Bakaríinu við Brúna og eru þessar tegundir aftur á boðstólum í ár. Hjá Brauðgerðarhúsi Akureyrar sló Oreo-bolla í gegn í fyrra og er hún einnig í boði í ár.

Vegan bollur

Fyrir þá sem kjósa mjólkur- og eggjalausar bollur þá fást vegan bollur hjá Sykurverki og Brauðgerðarhúsi Akureyrar. Brauðgerð Kr. Jónssonar ætlar líka að bjóða upp á slíkar bollur. Það er því ljóst að úrvalið er afar fjölbreytt og ættu allir að geta fundið bollu sem hentar þeirra smekk.

*veganbollur eru með jurtarjóma.

Axelsbakarí er með ódýrustu bakarísbollurnar á Akureyri en þar á bæ seljast klassísku bolludagsbollurnar best.