Fara í efni
Fréttir

Varð orðlaus þegar þær nefndu upphæðina

Marta Kristín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, í miðjunni - steinhissa. Styrkinn afhentu Vilborg Jóhannsdóttir, til vinstri, og Inga Vestmann.

„Það kom mér algjörlega í opna skjöldu þegar Inga og Vilborg sögðu mér hve mikið hefði safnast,“ sagði Marta Kristín Jónsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis í samtali við Akureyri.net. Dekurdagar, hugarfóstur kaupmannanna Vilborgar Jóhannsdóttur í Centro og Ingu Vestmann í Pedromyndum, standa árlega fyrir söfnun í október, til styrktar Krabbameinsfélaginu. Þær afhentu félaginu 4,2 milljónir króna á dögunum, eins og kom fram hér á vefnum á laugardaginn.

„Það er nauðsynlegt fyrir félag eins og okkur að eiga sterkt bakland. Við fáum árlega myndarlegan styrk úr Velunnarasjóði Krabbameinsfélags Íslands en Dekurdagar hafa í nokkur ár verið stærsti bakhjarl okkar hér fyrir norðan. Við höfðum í raun sent út neyðarkall og gerðum okkur vonir um, þrátt fyrir ástandið í þjóðfélaginu, að jafn mikið myndi safnast og í fyrra. Þá söfnuðust ríflega þrjár milljónir þannig að þetta fór fram úr okkar björtustu vonum. Ég varð eiginlega orðlaus þegar þær nefndu upphæðina,“ segir Marta Kristín.

Félagið veitir krabbameinsgreindum og aðstandendum þeirra ókeypis viðtöl og þjónustu. Marta Kristín segir féð frá Dekurdögum því koma sér einstaklega vel.