Hvað er þetta lið úti á landi að væla?

„Þeir sem baða sig í hlýrri spýjunni skilja vitanlega ekki hvers vegna þetta lið úti á landi er að væla um jafnræði í lífsgæðum og tækifærum. Þannig er öll fjárfesting utan höfuðborgarsvæðisins tortryggð og uppnefnd kjördæmapot eða bitlingur. Lítið ykkur nær.“
Þetta segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, viðskiptafræðingur og flugmaður, í grein sem birtist á Akureyri.net í kvöld.
„Stærsta byggðafestuaðgerð sem ráðist hefur verið í nokkru sinni er pólitísk ákvörðun um að byggja upp alla stjórnsýslu miðlægt á vesturannesi Íslands. Risabitlingur, sem valdið hefur þeirri byggðaröskun og slæmri nýtingu auðlinda sem við horfum upp á. Þetta er soldið eins og bóndi sem ákveður að heyja bara 1/10 engja sinna og láta rest fara í órækt.“
Fullkomið skilningsleysi
Tilefni greinar Þorvaldar Lúðvíks er nýjasti þáttur hlaðvarpsins Komið gott, með Ólöfu Skaftadóttur og Kristínu Gunnarsdóttur. Hann hrósar þeim fyrir góða þætti en segir að í þeim nýjasta hafi þær „í miklu oflæti“ tætt í sig árlega fjárveitingu til Sóknaráætlunar landshluta. „Þar er um ræða einhverjar 140 milljónir sem ráðstafað var úr ráðuneyti Eyjólfs Ármannssonar, en svo „óheppilega“ vildi til í þetta skipti að 9 af 14 verkefnum sem hlutu fjárframlag voru úr kjördæmi Eyjólfs. Ég ætla ekki að elta ólar við það, enda hef ég ekki forsendur fyrir framan mig, en það sem vakti mig til umhugsunar var hæðnistónninn, sjálfhverfan og fullkomið skilningsleysi á tilgangi þessarar fjárveitingar. Það varð mér hvatning til að setja þetta smotterí í samhengi sem mannskapur kannski skilur.“
Hugsa þarf landið upp á nýtt
Aðalskandallinn við þennan lið á fjárlögum, segir Þorvaldur Lúðvík „er auðvitað að hann skuli ekki vera 100 sinnum hærri, eða amk 14 milljarðar, til þess að þetta þjóni tilgangi sínum um að leiðrétta byggðahalla, aðstöðumun, og örva nýsköpun um land allt.“
Hann segir reyndar að landsbyggðirnar geti séð um sig sjálfar, sé rétt gefið. „Það þarf að hugsa landið upp á nýtt. Ekki með einhverjum bitlingum eða Sóknaráætlunum í kjördæmum, heldur hnitmiðuðum aðgerðum með alvöru fjármunum sem leiða til þess að hagnýting landsins alls verður að veruleika og við stækkum kökuna.“
Grein Þorvaldar Lúðvíks: OFF – Oflæti, fákunnátta og fordómar