Húsheild við Mývatn hefur keypt Hyrnu
Verktakafyrirtækið Húsheild ehf. í Mývatnssveit hefur keypt byggingafélagið Hyrnu á Akureyri af Erni Jóhannssyni. Gengið var frá samningi þess efnis í dag.
Örn Jóhannsson, sem lærði húsasmíði fyrir margt löngu, stofnaði Hyrnu fyrir 27 árum, 1994, ásamt Helga Snorrasyni. Örn hefur átt fyrirtækið einn síðustu ár. Undanfarið hafa 40 til 45 menn unnið hjá Hyrnu en eru 35 þessa dagana. „Þeim fækkaði aðeins eftir að við lukum við leikskólann [Klappir við Glerárskóla, sem tekinn var í notkun í haust] en Ólafur ætlar sér að efla fyrirtækið til muna,“ sagði Örn við Akureyri.net í dag. Þar vísar Örn til Ólafs Ragnarssonar, verktaka og framkvæmdastjóra Húsheildar.
Hyrna hefur í raun verið til sölu í tvö ár. „Ég er á 69. aldursári,“ sagði Örn í dag. „Ég er búinn að fá þrjú gul spjöld; blóðtappa í lunga, kransæðastíflu og magasár svo það var bara kominn tími til að hætta.“