Hús Matthíasar leigt, frestur til morguns
Sigurhæðir, hús séra Matthíasar Jochumssonar, hefur verið auglýst til leigu og hafa áhugasamir tíma þar til á morgun, til að skila inn hugmyndum og tilboðum.
Húsið er í eigu Akureyrarbæjar. Þjóðskáldið, séra Matthías Jochumsson, lét reisa Sigurhæðir árið 1903. Það er einlyft timburhús með risi. Húsið stendur á steinhlöðnum kjallara og miðjukvistir með risþaki eru á vestur- og austurhlið. Viðbyggingar eru við þrjár húshliðar, anddyri með valmaþaki við norðurstafn, inngönguskúr með skúrþaki við bakhlið og forstofa með valmaþaki við suðurstafn, að því er segir á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Húsið er friðað skv. lögum um menningarminjar og verður starfsemi í húsinu að samræmast þeim kvöðum sem því fylgja og vera þess eðlis að ekki mæði of mikið á því. Ekki verður heimilt að búa í húsinu.
Áhugasamir þurfa að skila inn greinargerð þar sem m.a. kemur fram, auk leiguupphæðar:
- Hvaða starfsemi fyrirhuguð er í húsinu
- Menningarlegt vægi starfseminnar og tenging við sögu hússins
- Hvernig fjármögnun verður háttað
Stjórn Akureyrarstofu, sem fer með málið, hefur tilkynnt að við yfirferð á framlögðum hugmyndum og tilboðum mun fyrirhuguð starfsemi og menningarlegt vægi gilda 50% af mati og tilboð um leigufjárhæð 50%.
Húsið verður leigt til fjögurra ára með möguleika á framlengingu samnings í önnur fjögur ár.