Hulda Sigríður ráðin í stað Hildigunnar
Hulda Sigríður Ringsted hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra hjúkrunar og bráða- og þróunarsviðs við Sjúkrahúsið á Akureyri. Hildigunnur Svavarsdóttir gegndi starfinu áður en hún var ráðin forstjóri stofnunarinnar í haust.
„Hulda Sigríður hefur mikla þekkingu og reynslu á sviði stjórnunar og mannauðsstjórnunar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og víðtæka reynslu á sviði heilbrigðisþjónustu. Hún hefur starfað sem mannauðsstjóri við sjúkrahúsið frá árinu 2015, átt sæti í framkvæmdastjórn og tímabundið gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar og bráða- og þróunarsviðs. Einnig hefur Hulda starfað sem forstöðuhjúkrunarfræðingur á bráðamóttöku sjúkrahússins og sem deildarstjóri á Öldrunarheimilum Akureyrar,“ segir á vef SAk.
„Hulda Sigríður hefur BS gráðu í hjúkrunarfræði og MS gráðu í heilbrigðisvísindum frá Háskólanum á Akureyri ásamt sí- og endurmenntun á sviði mannauðssmála, gæðamála, upplýsingatækni, bráðaþjónustu og heilbrigðisþjónustu.“